131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:41]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég beindi spurningu til hæstv. forseta fyrr í umræðunni um hvort hægt væri að verða við því að fá fund með formanni Frjálslynda flokksins á mánudagsmorgun um framgöngu hæstv. forseta á fundum. Ég óska eftir því að hæstv. forseti geri grein fyrir afstöðu sinni til bónar minnar. Eru engin viðbrögð við henni?

Þessi framkoma hæstv. forseta gengur ekki upp. Hann verður að huga að því að hann er í lýðræðislegu þjóðþingi og á að gæta réttar þingmanna. Þetta er með ólíkindum. Hann á ekki þetta þing. Hann virðist líta svo á að hann eigi það og þurfi ekki að svara einu né neinu þegar er beint að honum spurningum. Mér finnst þetta vera með ólíkindum og í rauninni dónaleg framkoma.

Ég ætlaði að beina fyrirspurn fyrr í dag til forseta um fyrirspurnir til hæstv. utanríkisráðherra. Það hefur tekið hæstv. utanríkisráðherra meira en fjóra mánuði að koma því í verk að svara einfaldri fyrirspurn.

Í öðru lagi ætlaði ég að spyrja um hvers vegna fyrirspurn sem ég beindi að hæstv. forsætisráðherra varðandi það hvað forsætisráðuneytið greiddi fyrir lögfræðiálit Eiríks Tómassonar. Eru þetta svona stórir karlar að þeir geti ekki svarað? Hæstv. forseti getur ekki svarað því hvort hann verði við óskum um fundi með formanni flokksins.