131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Vísindaveiðar á hvölum hér við land eru bráðnauðsynlegar til að fylla út í þá heildarmynd sem við þurfum svo sannarlega á að halda hvað varðar vistkerfið í hafinu í kringum Ísland. Það er mjög erfitt að rannsaka hvali á viðunandi hátt, til að mynda fæðunám, án þess að þurfa að aflífa þá, veiða þá.

Ég hygg að við ættum í rauninni að ganga mun lengra en við höfum gert hvað þetta varðar. Ég tel að við ættum líka að stunda vísindaveiðar á smáhvölum, tannhvölum, og jafnvel íhuga að fara út í veiðar á öðrum hvölum, þ.e. stærri hvölum en hrefnum. Ég held að allir hljóti að skilja það, líka þeir sem eru hallir undir náttúruvernd, að til að geta stundað sjálfbæra nýtingu bæði á hvalastofnum og fiskstofnum þurfum við að hafa fyrir hendi ákveðnar grundvallarupplýsingar. Þeirra upplýsinga vona ég svo sannarlega að verði aflað (Forseti hringir.) með þessum vísindaveiðum, en ég verð þó að segja að kostnaðurinn er nokkuð hár.