136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Síðasti ræðumaður virðist hafa ruglast á dögum. Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra eru á morgun, hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni til fróðleiks.

Það merka sem gerðist hér var auðvitað það að formannsefni í Sjálfstæðisflokknum hefur ekki stefnu í Evrópusambandsmálum. Það er vaninn að formenn í flokkum séu ekki bara yfirmenn gjaldkerans og stjórni dagsetningum á flokksráðsfundum eða miðstjórnarfundum heldur leggi þeir fram sýn flokksins til framtíðar, fram fyrir þjóðina og fram fyrir aðra flokka, taki þátt í hinum lýðræðislegu samskiptum og það er beinlínis hlutverk formanna að segja af eða á um þessa hluti eða skýra afstöðu flokksins til þeirra. Þá er illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum ef frambjóðendur til formennsku þar treysta sér ekki til að gera það. Hvað sem um Sjálfstæðisflokkinn má segja þá hefur hann átt öfluga leiðtoga sem einmitt hafa í stærstu málum, í utanríkismálum, lagt fram sína sýn fyrir þjóðina sem þjóðin oftar en ekki hefur reyndar farið eftir. Svo getum við talað um hvort það hafi verið gott eða ekki.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur nú á tveimur mánuðum, frá 13. desember sl. í grein þeirri sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir vitnaði til, skipt um skoðun í málinu. Þá vildi hann semja við ESB en nú kemur í ljós að hann er efasemdarmaður um slíka samninga og telur að næsta skref í málinu sé það að stjórnmálaflokkarnir semji um næstu skref og þau skref verði í miklu samráði milli stjórnmálaflokkanna og annarra afla í landinu. Hvaða skref, forseti, hvaða skref er maðurinn að tala um? Getur hann ekki svarað þessu fyrir okkur aðra stjórnmálamenn í salnum, fyrir þjóðina og fyrir kjósendur í Sjálfstæðisflokknum, hvaða skref það eru? Vill hann semja við ESB og leggja þá samninga fyrir þjóðina eða vill hann það ekki?