136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta er of stuttur tími sem ég hef hér til þess að bera það saman hvernig manni leið með Samfylkinguna í ríkisstjórn með hinum aðgerðarlausa og hugmyndasnauða Sjálfstæðisflokki hér fyrir jól og síðan núna í jafnaðarstjórn með stuðningi framsóknarmanna sem eru á leiðinni í kosningar og inn í nýtt fjögurra ára tímabil þar sem það verður að sjálfsögðu eitt af höfuðatriðum við stjórnarmyndun, hver sem hún verður, hvernig farið verður með Evrópusambandsmálið. (Gripið fram í.)

Mér skilst nú á hv. næsta formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, að hann standi við grein sína frá 13. desember og ég fagna því. Það er þá þannig að hann vill samninga við Evrópusambandið og að þeim gerðum verði þeir lagðir fyrir þjóðina. Það er líka eðlilegt. Ég held að það sem við eigum að gera núna strax eftir kosningar sé að reyna að leita samstöðu allra flokka eða þá eins margra flokka og hægt er — komast eins langt og hægt er með eins marga og hægt er, eins og félagi minn Sighvatur Björgvinsson sagði einu sinni um annað tilefni — um eins snögga samninga og hægt er við Evrópusambandið þannig að þeir standist öll þau skilyrði og kröfur sem við setjum. Þeir taki líka til evruupptöku helst á hraðari hátt en venja er um slík efni og þannig að við komumst sem fyrst í skjól af þeim gjaldmiðli þó að við þurfum auðvitað að halda krónunni áfram eitthvað um sinn.

Ég spyr mig að því hvort ekki sé heppilegt í tengslum við slíka samninga að fara þá líka í samninga um þær skuldir og þau mál sem hér voru nefnd í hinni umræðunni þannig að þetta sé einn pakki og að sjálfsögðu sé það þjóðin sem að lokum sker úr um þetta. Ég fagna því að hv. þm. Bjarni Benediktsson, næsti formaður Sjálfstæðisflokksins, og flokkur hans séu á þessari leið ef það er (Forseti hringir.) réttur skilningur minn.