136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

uppbygging samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

353. mál
[12:48]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þingmanni fyrir þá fyrirspurn sem hann hefur lagt hér fram og aðrar spurningar sem hann bætti við í ræðu sinni. Ég skal reyna eftir fremsta megni að komast yfir þær allar og sjá hvað hægt er að gera á þessum fimm mínútum.

Fyrst að spurningunni: Hvað líður áformum um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu? Þar er fyrst til að nefna framkvæmdir á Reykjanesbraut í Garðabæ. Á síðasta ári voru tekin í notkun tvenn ný mislæg gatnamót á Reykjanesbraut í Garðabæ, við Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg, og lokið verður við frágang á báðum þessum verkum á þessu ári.

Ef ég fer svo yfir í framkvæmdir sem boðnar hafa verið út eða þar sem útboð eru á næsta leiti, þá er fyrst að nefna Arnarnesveg frá nýjum gatnamótum við Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi. Áætlað er að útboð verði auglýst í lok mars og framkvæmdir hefjist í beinu framhaldi og verði lokið sumarið 2010.

Álftanesvegur frá Hafnarfjarðarvegi í Engidal að Bessastaðavegi. Framkvæmdin sem felst í lagningu nýs vegar ásamt hringtorgi við Bessastaðaveg er í útboði. Áætlaðar framkvæmdir hefjast í maí eða júní og verður lokið haustið 2010.

Hvað varðar hringveginn í Mosfellsbæ þá er unnið að undirbúningi breikkunar í fjórar akreinar frá Skarhólabrautarhringtorgi að Þingvallavegarhringtorgi. Útboðsgögn verða tilbúin síðar á árinu.

Hringvegurinn frá Rauðavatni að Vesturlandsvegi. Hönnunarvinna er í gangi. Útboðsgögn fyrir tvöföldun hringtorgs við Norðlingavað og útboðsgögn fyrir breikkun kaflans frá Bæjarhálsi að Vesturlandsvegi verða tilbúin i haust.

Þá er rétt að nefna hér líka Suðurlandsveg. Mikil vinna er í gangi hvað varðar undirbúning þar og ég reikna með að í næstu viku muni koma tilkynning frá okkur um hvað verði gert þar, hvenær verk hefjist og hvernig verði farið í það.

Framkvæmdir sem boðnar verða út síðar eru hringvegur á Kjalarnesi. Frumhönnun vegna tvöföldunar vegarins liggur fyrir í drögum og er í óformlegri kynningu hjá Reykjavíkurborg. Frumhönnunargögn verða forsenda deiliskipulags. Ekki er áætlað að hægt verði að bjóða út framkvæmdir á þessu ári.

Kringlumýrarbraut og Miklubraut. Mislæg gatnamót og stokkur vestur að Rauðarárstíg. Reykjavíkurborg hefur lagt fram tillögu að tveggja hæða gatnamótum sem er til skoðunar hjá Vegagerðinni. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vinnu við umhverfismat síðar á árinu.

Ef við förum svo yfir á Hafnarfjarðarveg, gatnamót við Vífilsstaðaveg. Lausleg athugun á kostnaði við minnsta áfanga mislægra gatnamóta er af stærðargráðunni 2–3 milljarðar. Breikkun gatnamótanna í plani eins og gert var við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar gæti leyst úr þörf fyrir aukna umferðarrýmd og verður sú lausn könnuð frekar í samráði við bæjaryfirvöld í Garðabæ. Talið er að sú framkvæmd kosti um 500 millj. kr. Þess er auðvitað rétt að geta að hin vellukkaða framkvæmd á Miklubraut/Kringlumýrarbraut, sem gerð var í tíð R-listans, hefur margsannað gildi sitt og sjáum við það m.a. í umferðarslysatölum að óhöppum hefur fækkað.

Ef við tökum næst Reykjanesbraut í Hafnarfirði frá Kaldárselsvegi að Krísuvíkurvegi. Hönnunarvinna vegna tvöföldunar brautanna ásamt nýjum mislægum gatnamótum við Krísuvíkurveg er í gangi og áætlað að útboðsgögn verði tilbúin í lok árs.

Arnarnesvegur frá Fífuhvammsvegi að Breiðholtsbraut. Undirbúningsvinna er í gangi og gert er ráð fyrir að útboðsgögn verði tilbúin árið 2010.

Síðan getum við farið yfir Sundabraut þar sem unnið er að umhverfismati fyrir báða áfanga, þ.e. frá Sæbraut að Geldinganesi annars vegar og frá Geldinganesi norður á Kjalarnes hins vegar.

Ég vil líka, virðulegur forseti, nefna nokkur minni verk sem eru til skoðunar í samvinnu við sveitarfélög. Lagfæring á gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar er í útboði með Reykjavíkurborg. Lenging strætóreina á Miklubraut er til skoðunar og einnig strætórein við Hafnarfjarðarveg frá Arnarneshæð að Kópavogshálsi. Lagfæringar gatnamóta Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar og einnig lagfæring gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Fleiri slík verk eru í undirbúningi.

Almennt um umferðarflæði, af því að hv. þingmaður spyr út í það hér, má segja að ástand umferðar á höfuðborgarsvæðinu er í allgóðu horfi. Ferðahraði og tafir eru besti mælikvarðinn á ástandið. Meðalferðahraði á völdum aðalleiðum í Reykjavík var um 32 km á klukkustund á háannatíma, bæði kvölds og morgna, árið 2008 samkvæmt mælingum samgönguskrifstofu Reykjavíkurborgar. Ferðahraðinn er mun hærri utan annatíma. Ferðahraði er skilgreindur sem meðalhraði frá upphafsstað til endastaðar og eru öll stopp á leiðinni innifalin. Borið saman við erlendar borgir þykir þetta mjög hár ferðahraði.

Virðulegi forseti. Þar sem klukkan er farin að tifa á mig vil ég segja að vegna þeirra mörgu og góðu aukaspurninga sem hv. þingmaður lagði fyrir mig þá mun ég að fara betur yfir þær í seinni svartíma mínum.