138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

dagskrár- og kvikmyndagerð hjá Ríkisútvarpinu.

361. mál
[14:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem lögðu sitt af mörkum í þessari umræðu sem mér finnst mjög mikilvæg nú um stundir, því að það er einmitt rétt sem hæstv. ráðherra benti á um menningarlegt gildi slíkrar starfsemi fyrir okkur sem þjóð. Og hagrænu áhrifin, þau jákvæðu áhrif sem þessi atvinnugrein hefur á íslenskt samfélag, við verðum að halda því til haga í þessari umræðu hver þau eru. Þess vegna held ég að við þurfum að ræða málefni þessarar starfsstéttar frekar á vettvangi þingsins en einungis í örstuttri umræðu á Alþingi. Ég held að hv. menntamálanefnd ætti að taka einn vinnudag í að fara yfir starfsumhverfi greinarinnar og kanna með hvaða hætti við getum nýtt fjármuni hins opinbera sem best.

Það er rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði áðan, við þurfum að gæta aðhalds og við þurfum að velja hvar við ætlum að spara og hvar við ætlum að sækja fram, vegna þess að það má með sannfærandi rökum halda því fram að framlög í íslenska kvikmyndagerð og jafnvel innlenda dagskrárgerð skili sér margfalt til baka.

Ég fagna þessari umræðu og ég vil líka hvetja til þess að hv. menntamálanefnd og þingmenn sem í þeirri nefnd sitja láti sig þessi mál varða því að hér er um mjög mikilvæga atvinnugrein að ræða, þetta er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og þingmenn eiga að láta sig mál sem þessi varða. Í kjölfar þess að ég lagði þessa fyrirspurn fram hef ég fengið mikil viðbrögð frá fólki í þessum geira sem er því miður núna án atvinnu og menn finna fyrir samdrætti. Við þurfum að taka fullt tillit til þeirra aðstæðna sem hér ríkja, við þurfum að vinna vinnuna okkar með þeim hætti að menntamálanefnd taki þetta mál fyrir, kalli til aðila úr þessum geira, fari heildstætt yfir málið og gefi sér góðan tíma, því að sá tími sem við höfum haft hér (Forseti hringir.) til að ræða þetta stóra mál er því miður allt of stuttur.