144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

fjarskiptamál.

[11:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir í þessum umræðum en leyfi mér að bregðast við ákveðnum þáttum sem komið hafa fram. Ég vil segja aðeins um stefnumörkun og sérhæfingu stjórnmálaflokka að Sjálfstæðisflokkur getur þá orðið sérhæfður í sjávarútvegsmálum ef vilji er fyrir verkaskiptingu í þeim efnum, en ég er ekki að gera lítið úr þeim sjónarmiðum sem komu fram með því að segja þetta. Vegna orða hv. þingmanns sem hér talaði áðan vil ég þó segja að það er einmitt megintillaga okkar að skilgreina þessa háhraðatengingu, breiðbandstengingu, sem grunnþjónustu. Í því felast réttindi fyrir neytendur, borgarana. Það er grundvallarmál og við getum sagt að við séum á svipuðum slóðum og Obama eins og hv. þingmaður lýsir hér.

Þetta er ekkert sérstakt verkefni fyrir Ísland. Þau ríki sem við berum okkur oftast saman við og búa við álíka lagaumhverfi á fjarskiptamarkaði eru að fást við nákvæmlega sömu hluti, hvernig þau byggja upp fjarskiptainnviði með samfélagslegum styrk.

Samnýting eða stefnumörkun skiptir nefnilega mjög miklu máli því að í stefnumörkun felast líka mikil tækifæri til að samnýta með öðrum framkvæmdum. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Fyrir ekki löngu síðan var boðinn út einn leggur af svokallaðri hringtengingu, ljósleiðaratengingu, á Vestfjörðum og þar er samleið með framkvæmdum Orkubús Vestfjarða sem þýðir að tilboðið í verkið er ekki nema 33% af upphaflegri kostnaðaráætlun. Stefnumörkun skiptir máli og samlegðaráhrif með öðrum veituframkvæmdum skipta gríðarlega miklu máli. Það er einmitt þess vegna sem þessi stjórnarmeirihluti og ríkisstjórn hefur þegar hafið uppbyggingu á fjarskiptainnviðum með því að hafa í fjárlögum þessa árs lagt til verulega aukna fjármuni til að styrkja hringtengiverkefni.

Vegna spurninga Guðbjarts Hannessonar segir í ályktun Alþingis um byggðamál frá vori 2014 að fyrst eigi að horfa til þeirra byggða í áherslum ályktunarinnar á fjarskiptainnviði og uppbyggingu á fjarskiptum á þessi veikari svæði. Starfshópurinn markaði ekki sérstaklega stefnu í þeim efnum (Forseti hringir.) en dregur saman nokkur álitaefni í lok hans. Fyrst og fremst vil (Forseti hringir.) ég þakka fyrir þessa umræðu.