144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka að ég mun leitast eftir því að taka áfram þátt í umræðum eftir því sem tilefni gefst til. Ég held líka að það sé nauðsynlegt að halda því til haga að ég tel að forseti sé í fullum rétti með svona ákvörðunartöku, það sé mat hans sem liggi þá fyrir því að málin séu nægjanlega lík til að slík ákvörðun sé tekin. Oft er þetta rætt á vettvangi þingflokksformanna en það er ekki algilt, ég held að ég sé alveg klár á að svo sé ekki.

Ég vonast til þess að þetta verði ekki til þess að spilla neitt fyrir málinu né heldur því ágæta samkomulagi sem hér er annars um hvernig þingstörf gangi fram á næstu dögum. Í þessu er ekkert annað fólgið en að við töldum að það væri til hagræðis fyrir þingið að hafa þetta svona. Ég skil vel það sem hefur komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum um að þeim finnist það ekki. Niðurstaða forsetans liggur fyrir, þetta er staðan, en ég mun þá, eins og ég segi, eftir atvikum (Forseti hringir.) vera hér til svara.