144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[13:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er auðvitað mikilvægt að fylgjast með þróun á viðskiptaaðferðum á því sviði eins og öðrum, raunar jafnvel frekar á þessum því að þarna á mikil framþróun sér stað. Mikilvægt er að hafa í huga að það á ekki við sem áður var að það eyðist sem af er tekið, heldur getur notkun leitt til enn meiri notkunar og þannig skapað meiri verðmæti fyrir höfundaréttarhafann. Það má náttúrlega ekki leyfa þeim viðskiptum að þróast þannig að það sé á kostnað skapandi listamanna eða að þeir þurfi um árabil að búa við óviðunandi starfsumhverfi af því einhver fyrirtæki eru að þróa nýtt viðskiptaumhverfi. Við verðum að tryggja hag þeirra sem eiga framfærslu sína undir því að réttindi þeirra til eigin verka séu tryggð.

Ég vildi hins vegar segja almennt um frumvörpin, og ég fagna því að þingmaðurinn ætlar ekki að liggja á liði sínu við að vinna í þeim á þeim fáu vikum sem eftir eru, að ég held þó að mikilvægt sé að hér sé lokið því sem lýtur að innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins. Ég hvet hv. þingmann til að styðja hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson í því að við rekum af okkur slyðruorðið í því, við erum komin fram yfir á tíma í því, og innleiðum tilskipun Evrópusambandsins í íslensk lög.