144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur lög að mæla að einhverju leyti en þetta er því miður sú hugmyndafræði sem stundum er kölluð kapítalismi og ræður þarna ríkjum. Þetta eru fyrirtækin sem stýra á einhvern hátt neyslunni með þessum hætti í þeim tilgangi að hagnast á öllu saman. Ég er ánægð að heyra hæstv. ráðherra lýsa áhyggjum af þessari stöðu. Þetta er nákvæmlega það sem þessi fyrirtæki eru að gera. Þau eru prímapakítalistar sem hagnast á þessu kerfi, nákvæmlega eins og við upplifum almennt á samskiptamiðlum þar sem skyndilega birtast vefsíður, hafi maður einu sinni heimsótt vefsíðu mun hún birtast næst á Facebook-síðu manns og kynna manni ný og lokkandi tilboð og maður losnar hreinlega ekkert við hana þaðan af því að þarna er verið að vinna að markaðssetningu. Vissulega eru ýmsir sem reyna að ná tökum á frelsinu á netinu og flestir í hagnaðarskyni en ýmsir til þess að ná völdum í einhverju öðru skyni. Það sem hæstv. ráðherra nefndi mundi ég kalla að væri í hagnaðarskyni.

Þetta er það sama og hefur verið gagnrýnt áður, á fyrri tímum þegar tæknin var minni, þegar spilunarlistar útvarpsstöðva voru gagnrýndir harkalega þar sem var ákveðið samkrull í því hvaða tónlist mátti spila á vissum útvarpsstöðvum og sumt var ekki spilað þar og annað var spilað sem undirstrikar þörfina á almannaútvarpi þar sem ekkert slíkt er í gangi. Það er kannski lymskulegra það sem er í gangi hjá sumum af þeim fyrirtækjum sem um ræðir, þ.e. efnisveitufyrirtækjunum.