144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

efling ísaldarurriðans í Þingvallavatni.

42. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Í fjarveru 1. flutningsmanns, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, mæli ég fyrir 42. þingmáli á þskj. 42 sem fjallar um eflingu ísaldarurriðans í Þingvallavatni. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu en hana flytja ásamt okkur hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Páll Valur Björnsson og Ögmundur Jónasson.

Tillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að efla viðkomu ísaldarurriðans í vatnakerfi Þingvallavatns. Verkefni hópsins eiga samkvæmt tillögunni að vera fjórþætt:

1. Að meta hvort bæta megi riðstöðvar með riðmöl þar sem stofnar eru taldir veikir, hafa horfið eða þar sem tilraunir til að koma stofnum upp á nýjan leik ganga hægt. Í því sambandi eru meðal annars sérstaklega nefnd í tillögunni svæði sem tengjast eyjunum syðst í Úlfljótsvatni, Efra-Sogi öllu og sömuleiðis Útfallinu fyrir mynni Efra-Sogs. Fyrir virkjun þess árið 1959 voru þar hrygningarstöðvar stærsta og öflugasta stofns í vatninu. Sá stofn gjöreyddist þá en með þingsályktun Alþingis sem samþykkt var í fyrra um fiskveg gegnum stífluna skapast aðstæður til að freista þess að endurreisa þann stofn að hluta. Í því skyni þarf hins vegar að koma heppilegri riðmöl í Efra-Sogi og sömuleiðis í Útfallinu en á síðarnefnda staðnum sópaðist öll riðmöl í burtu með slysinu mikla á þjóðhátíðardaginn 1959 þegar bráðabirgðastífla brast og vatnsflaumurinn tætti hana með sér gegnum nýboruð virkjunargöng og niður í Úlfljótsvatn.

2. Að greina reynslu af fyrri sleppingum sumaralinna og ársgamalla seiða og greftri frjóvgaðra hrogna í riðmöl í því skyni að leggja til aðferðir sem líklegastar eru til að styrkja eða koma á fót nýjum átthagabundnum stofnum, ekki síst í Útfallinu og Efra-Sogi.

3. Að kanna leiðir til að styrkja hrygningu örstofna við uppsprettur, svo sem fyrir Nesjahrauni og Eldborgarhrauni. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að Þingvallavatn er sérstakt að því leyti að um botn þess liggja miklar sprungur sem miklar lindir spretta frá og þar hafa sums staðar í fjöruborði hrygnt miklir stofnar. Þetta er ekki þekkt utan Íslands en sem þingmaður Norðausturkjördæmis vil ég þó láta koma fram að á einum öðrum stað eru dæmi um að urriðinn hrygni við uppsprettur, um hraunsprungur, og það er í Mývatni.

4. Að skoða hvort æskilegt sé að settar verði samræmdar veiðireglur varðandi urriða fyrir allt Þingvallavatn. Þingvallanefnd, undir forustu núverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem jafnframt er formaður Þingvallanefndar, á sérstakt hrós skilið fyrir að hafa sett strangar reglur um veiði sem fela í sér að einungis má veiða urriða á flugu og að öllum veiddum urriða verður að sleppa. Nýlegar upplýsingar sem birtar voru opinberlega á ráðstefnu í mars sl. staðfesta að veruleg aukning varð á urriða sem gekk til hrygningar í Öxará í kjölfar þeirrar ákvörðunar Þingvallanefndar.

Ástæða þess að lagt er til að hæstv. forsætisráðherra skipi starfshópinn en ekki hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, eða hæstv. iðnaðarráðherra sem þó fer með málefni Landsvirkjunar sem vitanlega er málið skylt, er sú að málefni þjóðgarðsins og vernd Þingvallavatns er á forræði forsætisráðuneytisins.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem er 1. flutningsmaður málsins eins og áður sagði hefur um 25 ára skeið reglulega flutt þingmál sem varða endurreisn ísaldarurriðans og skrifaði á sínum tíma merka bók, Urriðadans, sem gjörbreytti þekkingu og viðhorfum manna til þessa einstaka fisks sem líklega er einstæður í lífríki Íslands. Það er óhætt að segja að barátta hv. þingmanns átti mestan þátt í að gripið var til margvíslegra aðgerða sem smám saman virðist hafa þokað urriðanum af hættusvæði. Til marks um það má nefna að þegar hv. 1. flutningsmaður hóf fyrst að fylgjast með hrygningargöngum í Öxará um 1990 sáust sum ár einungis 10–12 fiskar á hrygningarsvæðinu undan flúðunum neðan Drekkingarhyls. Árið 2000 voru þeir 60–80 í kjölfar sleppingar á seiðum undan Öxarárstofninum sem stóð 2000–2004 sem hv. 1. flutningsmaður hvatti til ásamt ýmsum öðrum þingmönnum á þeim tíma, t.d. Guðna Ágústssyni og Halldóri Blöndal. Þeim fjölgaði jafnt og þétt og voru orðnir á áttunda hundrað þegar Þingvallanefnd setti reglur sínar um að veiða og sleppa árið 2013. Við það tóku urriðagöngur stórt stökk upp á við og í fyrra, árið 2014, gengu ríflega 1.100 urriðar í ána. Hér er því um að ræða gjörbreytingu á ástandi stofnsins sem margir töldu hreinlega að mundi hverfa og að tæpast yrði hægt að bjarga. Það má ekki síst rekja til margvíslegra aðgerða sem beinlínis má rekja til reglulegra umræðna um aðgerðir til að endurreisa stofninn sem hv. 1. flutningsmaður málsins beitti sér fyrir og margir þingmenn með honum á seinni árum.

Stofninn er hins vegar enn þá lítill og til dæmis hefur annar vísindamaður, Jóhannes Sturlaugsson, sem Þingvallanefnd hefur styrkt árum saman til eftirlits og rannsókna með urriðanum sagt opinberlega, að vísu fyrir tveimur árum, að hrygningarstofninn í öllu vatninu kunni að verða innan við 1.500 fullorðnir fiskar. Síðan hefur stofninn vaxið en hins vegar er ljóst að eigi að koma honum í gott skjól þarf að bæta og fjölga hrygningarstöðvum. Reynsla vísindamanna sýnir að það er tiltölulega einfalt með því að bæta heppilegri riðmöl á hrygningarstaði þar sem heppilegur straumur er og þau svæði eru einmitt talin upp í tillögunni.

Svo má velta fyrir sér hví Alþingi fjalli sérstaklega um lífríki Þingvallavatns með þessum hætti. Í því sambandi legg ég áherslu á að Alþingi hefur sérstöku hlutverki að gegna þegar kemur að því að vernda lífríki Þingvallavatns og þar með urriðans. Samkvæmt lögum kýs Alþingi úr sínum röðum Þingvallanefnd sem skipuð er sjö þingmönnum og fer með stjórn þjóðgarðsins sem nær yfir norðurhluta vatnsins og Öxará.

Þingvallanefnd sem starfar í umboði Alþingis stýrir ekki aðeins rekstri þjóðgarðsins eins og hún hefur gert af myndarskap allt til þessa dags heldur á hún líka að sinna velferð lífríkisins í Þingvallavatni og þar með urriðans. Það er ástæða fyrir því að Alþingi hefur með ýmsum hætti beitt sér fyrir aðgerðum til að styrkja urriðann og talið eðlilegt að ræða ástand hans margsinnis í sölum sínum á undangengnum áratugum. Í ljósi þessara tengsla þingsins við Þingvallavatn er mjög eðlilegt að málefni þess séu reglulega rædd í þessum sölum. Saga urriðans og Alþingis er raunar skemmtilega samofin. Það vill svo til eins og rakið er í greinargerð með þingsályktunartillögunni að langmikilvægustu hrygningarstöðvar hans í dag eru á stuttum kafla rétt fyrir neðan Drekkingarhyl, örskammt þaðan sem Alþingi var stofnað og stóð öldum saman. Í því ljósi má sannarlega segja að Alþingi renni blóðið til skyldunnar. Þessi tillaga er í reynd framhald af öðrum aðgerðum sem Alþingi hefur áður beitt sér fyrir til að endurreisa urriðann sem á sínum tíma var nánast tapaður. Með henni eru lagðar til enn frekari aðgerðir, kostnaðarlitlar og einfaldar sem gætu enn treyst og eflt urriðastofninn í vatninu. Ég tel sjálfsagt að Alþingi samþykki hana eftir eðlilega skoðun.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur rakið það ítarlega hversu einstakur urriðastofninn í Þingvallavatni er. Hann er einn af örfáum stofnum ísaldarurriðans sem eftir eru og ef til vill sá eini í heiminum sem hefur lifað í einangrun nánast frá lokun hennar, um 9 þús. ára skeið. Sérstaða hans liggur í afar merkilegum lífsferli sem veldur því að hann verður langlífur, hefur því langan tíma til að vaxa í þeirri veislu sem hin margfræga, smágerða Þingvallamurta býður honum upp á og verður því mjög stór. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar kemur fram að þetta er langstórvaxnasti stofn urriða sem þekkist i heiminum. Það þykir ekki fréttnæmt lengur þegar 20 punda urriði veiðist í Þingvallavatni og má raunar geta þess að tveir slíkir hafa veiðst frá því að vorveiðin hófst fyrir nákvæmlega tíu dögum. 25 punda urriðar veiðast nú árlega. Ég minnist þess að í þingræðu fyrir alllöngu spáði hv. 1. flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu því að innan tíu ára mundi veiðast 30 punda urriði. Sá urriði veiddist í fyrra. Stærð Þingvallaurriðans gerir hann algerlega einstakan í heiminum.

Arfgerðin, ísaldargenin sem ráða þessari miklu stærð, má því segja að sé einstök og nægileg ástæða til að gera allt sem hægt er til að vernda stofninn. Hugsanlega geta ísaldargenin orðið mjög verðmæt í framtíðinni með þeim framförum sem tækni og erfðavísindi munu tryggja og enginn getur sagt fyrir um í dag.

Hæstv. forseti. Ísaldarurriðinn var á sínum tíma þekktur langt út fyrir landsteinana og á 19. öldinni, á tímum erfiðra samgangna og löngu fyrir tíma flugvélanna, komu eigi að síður hingað erlendir veiðimenn beinlínis til að verða sér úti um þá lífsreynslu að glíma við stórurriðann, ekki síst við Efra-Sogið, og geta sagst hafa veitt stærstu urriða í heimi. Það er reyndar mjög merkilegt að í kringum þessa menn varð til margvísleg þjónusta í Grímsnesinu þar sem bændur reistu sérstök hús til að hýsa þá og höfðu ágætistekjur af að selja þeim gistingu og veitingar og leigja þeim hross og leiðsögn. Í dag rekja menn upphaf ferðaþjónustu á Íslandi til þessa atvinnurekstrar og þannig má segja að Þingvallaurriðinn eigi sinn þátt í uppgangi skipulegrar ferðaþjónustu á Íslandi.

Það er enginn vafi á því að það var vegna mannanna verka sem urriðinn hvarf næstum því algerlega. Virkjunin í Efra-Sogi árið 1959 leiddi til þess eins og rakið er ítarlega í greinargerð tillögunnar. Á þeim tíma þurftu menn rafmagn og virkjanir í Soginu sáu Reykvíkingum fyrir því en það kostaði meðal annars það að stórurriðinn frægi í Þingvallavatni hvarf nánast um áratugaskeið. Á þeim tíma voru menn einfaldlega ekki meðvitaðir um hvað þessi aðgerð leiddi af sér. Bæði held ég að menn hafi ekki gert sér grein fyrir hvað stórurriðinn sem lifði í Efra-Sogi var sérstakur fiskur og eins gerðu menn sér ekki grein fyrir hvað áin var mikilvæg fyrir hann.

Ég rifja upp að í fyrra samþykkti Alþingi tillögu okkar nokkurra þingmanna um að gerður yrði fiskvegur milli Þingvallavatns og Efra-Sogs þar sem enn fellur talsvert vatn til að byggja upp gamla urriðastofninn sem þar lifði. Það er góð málamiðlun hvað varðar áreksturinn á milli urriðans og orkuframleiðslunnar því að fiskvegur gefur í senn færi á að byggja þar upp sterkan stofn og nýta áfram orkuna úr Efra-Sogi.

Hæstv. forseti. Eins og ég rakti í upphafi eru aðgerðirnar sem lagðar eru til í þessari tillögu einfaldar. Þær felast í því í fyrsta lagi að metið verði með hliðsjón af reynslunni hvaða aðgerðir hafa reynst bestar til að styrkja urriðastofnana í vatninu og í öðru lagi að gera tillögur um hvernig bæta megi hrygningarskilyrði á ýmsum stöðum til að auka afkomu Þingvallaurriðans.

Ég hvet að lokum þingheim til að samþykkja þetta mál þegar hv. atvinnuveganefnd hefur lokið umfjöllun sinni um leið og ég legg til að tillögunni verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.