150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[21:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir framsöguna og ég fagna því að nú eigi að gera það að skyldu að auglýsa stöður sendiherra, mér finnst það mjög ánægjuleg þróun. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem mætti kalla undanþágu frá þessari auglýsingaskyldu sem verið er að koma á varðandi skipun sendiherra sem snýr að 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur að auki skipað sendiherra tímabundið til allt að fimm ára til að veita tiltekinni sendiskrifstofu forstöðu eða gegna hlutverki sérstaks erindreka. Ráðherra skilgreinir hlutverk og valdsvið sendiherra samkvæmt þessari málsgrein í erindisbréfi og hann verður ekki fluttur í annað embætti. Að lokinni skipun samkvæmt þessari málsgrein fellur hún niður án mögulegrar framlengingar.“

Fyrsta spurning mín snýr að því hvað taki við eftir það. Skipunin fellur niður en er þá loku fyrir það skotið að viðkomandi sæki um sömu stöðu og þá reynslunni ríkari og sé þar með líka hæfastur í embættið? Hvernig er það hugsað nákvæmlega? Þarna hefur ráðherra skipunarvald og það án auglýsingar og fram kemur að það verður ekki framlengt. En er ekkert sem kæmi í veg fyrir að viðkomandi sæki strax aftur um starf hjá utanríkisþjónustunni að því loknu? Byrjum á því.