151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel reyndar að RÚV, Ríkisútvarpið, sé í hópi frjálsra fjölmiðla, þ.e. að fjölmiðill sem er í eigu almennings, er í almannaeigu, sé þar með frjáls undan óeðlilegum afskiptum eigenda, að það sé alveg tryggt, án þess að ég sé að halda því fram að slíkt sé daglegt brauð hvað varðar einkarekna fjölmiðla. Ég er alveg tilbúinn að hugsa um þessa hugmynd Miðflokksins, um að fólk geti ráðstafað hluta þessa gjalds til fjölmiðla að eigin vali, mér finnst það athyglisverð hugmynd. En ef við erum búin að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og það hefur ekki tekjur af auglýsingum lengur þá held ég nú að við verðum einhvern veginn að fjármagna það. Ég veit að hv. þingmaður vill þrátt fyrir allt hafa öflugt ríkisútvarp — ég veit að hann sér skyldur þess fjölmiðils kannski fyrir sér á örlítið annan hátt en ég — en hvernig eigum við þá að fjármagna Ríkisútvarpið? Ef það er ekki lengur að bítast um þessa bita við einkareknu fjölmiðlana á auglýsingamarkaði, sem sumir sjá fyrir sér að séu í boði fyrir einkarekna fjölmiðla ef RÚV fer af auglýsingamarkaði sem ég efast raunar um — ef þær tekjur eru ekki lengur fyrir hendi hjá RÚV og ef við þrengjum líka að fjármögnun RÚV með því að draga úr útvarpsgjaldinu sem það fær — hvernig á þá að fjármagna RÚV? Eða eigum við kannski bara að leggja RÚV niður vegna þess, eins og hv. þingmaður sagði, að það sé bara leifar liðins tíma, það sé bara eitthvað sovéskt, bara svona eins og Tass eða eitthvað því um líkt?