151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[15:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða mjög mikilvægt mál í samfélagi okkar, atvinnugrein sem mun geta átt mjög stóran þátt í því að endurreisa íslenskt efnahagslíf, skjóta styrkari stoðum undir íslenskt samfélag með stórkostlegri atvinnu- og verðmætasköpun sem teygir sig um allt land. Ég er með breytingartillögu við frumvarpið hér í 3. umr. málsins og mæli fyrir henni. Þar stendur:

„Á undan 1. gr. komi tvær nýjar greinar sem orðist svo:

a. (1. gr.)

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:

a. 1. málsliður 1. mgr. orðast svo: Hafrannsóknastofnun skal gera tillögu til ráðherra um það magn frjórra laxa, mælt í lífmassa, sem heimila skal að ala í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði, þar sem hefur verið unnið eða er verið að vinna burðarþolsmat, á grundvelli áhættumats erfðablöndunar.

b. 2. málsliður 3. mgr. orðast svo:

Áður en Hafrannsóknastofnun gerir tillögu samkvæmt 1. mgr. skal stofnunin leita ráðgefandi álits samráðsnefndar, samanber 3. mgr. 4. gr.

b. (2. gr.)

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. b laganna:

a. 1. mgr. orðast svo:

Ráðherra skal ákveða svo oft sem þörf þykir hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær það skuli gert. Ráðherra skal taka mið af beiðnum um framkvæmd burðarþolsmats frá þeim aðilum sem skipa fulltrúa í samráðsnefnd um fiskeldi. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar. Burðarþolsmat fyrir afmarkað svæði skal liggja fyrir áður en vinna við gerð strandsvæðisskipulags hefst, samanber 11. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018.

[…]

c. 4. mgr. orðast svo: Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um meðferð, útgáfu og breytingu burðarþolsmats.“

Virðulegur forseti. Þessar breytingar eru lagðar til á lagaákvæðum um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar til að skýrt sé kveðið á um að ráðherra skuli láta fara fram mat á burðarþoli fjarða og hafsvæða við strendur landsins og að lögin tryggi að áhættumat erfðablöndunar nái ávallt til þeirra svæða sem hafa verið burðarþolsmetin. Burðarþolsmat er skilgreint í 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. fiskeldislaga sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið. Á grundvelli burðarþolsmats er hámark lífmassa eldisdýra hvers rekstrarleyfis og starfsleyfis ákvarðað. Með lögum nr. 101/2019 var gerð sú efnisbreyting á ákvæði um burðarþolsmat að í stað þess að Hafrannsóknastofnun ákveði forgangsröðun hafsvæða var það sett í hendur ráðherra að ákveða hvaða svæði skyldi burðarþolsmeta hverju sinni. Það kemur síðan í hlut Hafrannsóknastofnunar að gera tillögu til ráðherra um áhættumat erfðablöndunar eða það magn frjórra laxa mælt í lífmassa sem heimila skal að ala í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði á grundvelli áhættumatsins, samanber 1. mgr. 6. gr. fiskeldislaga. Burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar eru þannig samkvæmt gildandi lögum ein þýðingarmestu lögbundnu stjórntæki stjórnvalda sem byggja á vísindalegri aðferðafræði við að ákvarða hvar og með hvaða hætti starfsemi fiskeldis fari fram. Rímar það vel við yfirlýst markmið fiskeldislaga eins og þau birtast í 1. gr. laganna.

Frá því sett voru í lög ákvæði um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar hefur fengist nokkur reynsla á framkvæmd þessara rannsókna. Í júní 2020 staðfesti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tillögu Hafrannsóknastofnunar að nýju áhættumati erfðablöndunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi. Gildandi áhættumat erfðablöndunar gerir ráð fyrir að ala megi 106.500 tonn af laxi í sjó mælt í hámarkslífmassa og felur í sér 20% aukningu á heimiluðu eldi frjórra laxa frá eldra áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Í skriflegu svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við skriflegri fyrirspurn á Alþingi, dags. 24. júní 2020, kom fram að á árunum 2015–2018 voru tíu firðir eða hafsvæði burðarþolsmetin upp að 144.500 tonnum. Einnig kom fram að ráðherra hafði ekki óskað eftir burðarþolsmati frá gildistöku laga nr. 101/2019 og að ekki væri verið að vinna að burðarþolsmati í neinum fjörðum eða á neinum svæðum.

Til að markmið fiskeldislaga náist er mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma framfylgi lögum og beiti þeim vísindalegu úrræðum sem hafa verið lögfest til að afmarka eldissvæði þannig að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki ógnað. Þjónustugjaldi sem lagt er á rekstrarleyfishafa og rennur til umhverfissjóðs sjókvíaeldis er m.a. ætlað að standa straum af kostnaði við burðarþolsmat, vöktun og önnur sambærileg rannsóknarverkefni. Þörf er á að skerpa á orðalagi 1. mgr. 6. gr. fiskeldislaga um áhættumat erfðablöndunar þannig að tryggt sé að samfella verði við gerð mats á burðarþoli annars vegar og áhættumats erfðablöndunar hins vegar þannig að hafsvæði sem metið hefur verið til burðarþols sé einnig ávallt innan áhættumats erfðablöndunar. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að rekstrarleyfi skulu samrýmast bæði burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar, samanber 4. mgr. 6. gr. a og 3. mgr. 6. gr. b fiskeldislaga.

Ákvæði 1. mgr. 6. gr. b fiskeldislaga útlistar ekki með nákvæmum hætti hvaða firði og hvaða hafsvæði skuli burðarþolsmeta heldur felur ráðherra að forgangsraða hvaða svæði skuli burðarþolsmeta hverju sinni. Ástæða er þó til að undirstrika mikilvægi þess að unnið sé að burðarþolsmati á hafsvæðum við strendur landsins þar sem slíkt mat hefur ekki farið fram og kveðið sé skýrar á um skyldur ráðherra að ákveða svo oft sem þörf þykir hvaða hafsvæði skuli meta til burðarþols og í hvaða röð.

Við ákvörðun um forgangsröðun svæða er lögð til sú breyting að ráðherra beri að horfa til beiðna um burðarþolsmat svæða frá þeim aðilum sem eiga fulltrúa í samráðsnefnd um fiskeldi þannig að sem breiðust samstaða náist um ákvörðun ráðherra en áður hafði Hafrannsóknastofnun m.a. horft til fjölda fyrirliggjandi umsókna um leyfi á svæðum við forgangsröðun svæða. Þá er lagt til að samræmi verði milli endurskoðunar burðarþolsmats og áhættumats erfðablöndunar og Hafrannsóknastofnun gert að endurskoða hvort tveggja eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

Virðulegur forseti. Í þessum breytingartillögum er m.a. kveðið á um að við vinnu við strandsvæðaskipulag, samkvæmt 11. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða frá 2018, sé horft til þess að áður en þessari vinnu er lokið sé búið að burðarþolsmeta og áhættumeta svæðið. Við verðum að hafa í huga að þegar þessi lög, um skipulag haf- og stranda, voru sett var það einmitt gert vegna uppbyggingar fiskeldis í kringum landið. Það náðist sátt við sveitarfélögin í landinu um ákveðna málamiðlun við afgreiðslu þeirra laga. Þannig eru skipuð svokölluð svæðisráð sem fjalla um skipulagsmál þar sem fleiri en eitt sveitarfélög geta komið að. Það náðist samkomulag um það hvernig væri skipað í þetta svæðisráð. Í tillögum ráðherra, í því lagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi, var reiknað með því að þetta yrði fyrst og fremst á vettvangi stofnana ríkisins, þ.e. Umhverfisstofnunar og umhverfis- og atvinnuvegaráðuneytisins og viðeigandi stofnana þeirra með lítilli þátttöku heimamanna. Sú málamiðlun náðist í gegn að heimamenn eða fulltrúar sveitarstjórna skipa nú til samræmis fulltrúa í þessi svæðisráð sem vinna að skipulagi heimasvæðanna.

Ágreiningurinn við afgreiðslu málsins snerist ekki síst um það að fara sömu leið og farin er í öllum nágrannalöndum okkar þar sem sveitarfélögum er falið þetta skipulag eins og annað skipulag á sínum svæðum um allt land. Algengast er í nágrannalöndum okkar að skipulagsréttur sveitarfélaga nái eina til tvær sjómílur á haf út. Þá hefði ekki þurft að setja nein sérstök lög um það heldur bara breyta núgildandi skipulagslögum. En þetta var málamiðlun sem náðist.

Þessi lög voru sett með tilliti til laxeldis einmitt vegna laxeldis. Nú erum við að horfa á það að viðamikil vinna um skipulag haf- og strandsvæða er að fara af stað í nokkrum landshlutum og það á svæðum þar sem ekki er búið að burðarþolsmeta eða áhættumeta svæðin gagnvart laxeldi. Það á því að búa til skipulag sem ekki gerir ráð fyrir því hvort þar eigi að vera laxeldi eða ekki. Við erum alltaf að tala um að reyna að auka skilvirkni í störfum okkar hér í þinginu og í því regluverki sem við búum atvinnulífinu. Þetta þýðir að ef fiskeldi kæmi síðan til á svæðum sem búið er að skipuleggja þarf að taka allt skipulagið upp og breyta því. Ég held því að það sé mjög eðlilegt að við tengjum þetta saman og gerum það að skilyrði að búið sé að framkvæma burðarþols- og áhættumat á þeim svæðum þar sem fiskeldi er fyrirhugað og meta hvort þar sé rými fyrir eldi út frá þeim tæknilegu og vísindalegu forsendum sem við gefum okkur í því mati. Það er ágætt að hafa í huga í því samhengi að Íslendingar eru með strangari löggjöf um það en þekkist í þeim löndum sem eru hér í nágrenni við okkur og eru að byggja mikið upp í sínum fiskeldisiðnaði. Þar þekkist ekki svokallað áhættumat og mjög er horft til reynslu Íslendinga af þessari vegferð og það gæti orðið öðrum þjóðum til eftirbreytni, og yrði það ekki í fyrsta skipti þegar kemur að nýtingu auðlinda hafsins að horft er til Íslendinga í þeim atriðum.

Virðulegur forseti. Það er mikið talað um að það sem bíði okkar í endurreisn eftir áfallið sem hefur orðið vegna Covid-veirunnar sé að byggja upp ný og fjölbreyttari störf, nýja og fjölbreyttari verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Til þess er hvatt af hálfu innlendra sérfræðinga Samtaka atvinnulífsins og aðila vinnumarkaðarins. Við fáum líka hvatningu til þess að fjölga eggjunum í körfunni, eins og það er kallað, frá OECD, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og víðar. Um þetta eru sérfræðingar sem sagt sammála, um mikilvægi þess að við byggjum upp nýjungar í íslensku atvinnulífi og verðmætasköpun vegna þess hve áföllin geta orðið mikil vegna þeirrar fábreytni sem við búum við. Engum blöðum er um það að fletta og ég hef ekki séð neina atvinnugrein örva eins mikið byggð og fjölga eins mikið störfum og búa til eins mikil verðmæti á skömmum tíma og fiskeldi hefur gert. Hér þarf auðvitað að fara varlega með tilliti til lífríkisins. Til þess höfum við sett strangar reglur til að fara eftir. En það var mikið um það rætt í vetur, þegar var verið að setja á loðnukvóta og menn voru aftur að sjá kvóta í loðnu eftir tveggja ára stopp, hversu mikilvæg loðnan væri fyrir íslenskt þjóðfélag, íslenskt samfélag, útflutningsverðmætin af loðnuveiðum. Það nefndi það enginn að útflutningsverðmæti á laxi á síðasta ári voru meiri en af góðri loðnuvertíð og þau verða enn meiri í ár. Vöxturinn er heilmikill og við getum gert enn betur, virðulegur forseti. Það þarf ekkert að fjölyrða um það í sjálfu sér hve gríðarleg áhrifin eru á þær byggðir sem hér eru undir, sérstaklega í dag. Á sunnanverðum Vestfjörðum og á Vestfjörðum — það eru ekki mörg ár síðan menn hrópuðu yfir því að búið væri að kippa stoðunum undan þessum samfélögum. Þarna sjáum við vöxt. Við sjáum leikskóla byggða. Við sjáum bekkjardeildir komnar aftur í skóla. Svona er uppbyggingin. Við sjáum fyrirtæki sem voru fyrir hendi margfalda starfsemi sína og ungt fólk flytja á þessa staði til að taka þátt í uppbyggingunni. Það sama á sér stað á Austfjörðum. Það liggur fyrir, virðulegur forseti, að þetta getur átt sér stað víða um land. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera virkir þátttakendur í þessum málum. Við eigum eftir að horfa upp á miklar breytingar (Forseti hringir.) í öryggi varðandi lífríki hafsins og mögulega í næstu framtíð aukna framleiðslu á svokölluðum geldfiski. Þetta mun gjörbreyta öllum aðstæðum og opna ný hafsvæði í kringum landið fyrir þessum miklu tækifærum.