Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

982. mál
[17:33]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025. Þessi tillaga felur í sér stefnu og aðgerðaáætlun á sviði háskóla- og vísindastarfs í nýsköpun og hugverkaiðnaði, í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi, en við flutning þessara málaflokka til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis skapaðist grundvöllur fyrir mjög markvissa stefnumótun og stjórnsýslu á þessum sviðum með aukinn vöxt, verðmætasköpun og velsæld að leiðarljósi.

Tillagan er með þeim hætti að fyrst er farið yfir skýra framtíðarsýn sem við settum í upphafi þess að við mótuðum þetta nýja ráðuneyti, að hugvitið verði grunnurinn að stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar og í stað þess að byggja á takmörkuðum auðlindum sem hafa í gegnum tíðina valdið sveiflukenndu efnahagsástandi verði sjónum beint að sjálfbærri þróun atvinnulífs og samfélags með þekkingu og hugvit að leiðarljósi. Farið er yfir ákveðin meginmarkmið sem skipt er í þrennt. Það eru annars vegar meginmarkmið í háskóla- og vísindastarfi, meginmarkmið í nýsköpun og hugverkaiðnaði og meginmarkmið í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Á grundvelli þeirra markmiða eru síðan settar stefnumótandi aðgerðir sem verður lýst í mælaborði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og árlegri skýrslu um framgang þingsályktunarinnar.

Aðgerðirnar skiptast einnig í þrennt og mig langar að nýta tíma minn hér, virðulegur forseti, til að fara yfir þær þar sem þær eru mjög stefnumótandi, eru fjölmargar og fjölbreyttar en eiga það sameiginlegt að sú framtíðarsýn sem birtist í þessari þingsályktunartillögu er saga samfélagsins og hvernig við getum stuðlað að fjölbreyttara atvinnulífi og öflugra þekkingarsamfélagi af því að við höfum endalaus tækifæri í þessum málaflokkum. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er farið mjög skýrlega yfir bæði stöðuna í málaflokkunum, þær áskoranir og þann árangur sem hefur nú þegar náðst en ekki síst framtíðaráskoranir sem reynt er að mæta með mjög skýrum aðgerðum.

Síðan er fjallað um þessar aðgerðir og þær skiptast í þrennt eins og áður sagði. Í fyrsta lagi er farið yfir aðgerðir sem styðja markmið í háskóla- og vísindastarfi. Þar er fyrst nefnt átak í STEAM-kennsluaðferðum. Hvað er meint með því? Jú, markmiðið er að mæta þverfaglegri samvinnu námsgreina. Það þarf að fjölga þverfaglegum greinum í háskólunum okkar og ekki síst þarf að mæta vaxandi eftirspurn eftir tækniþekkingu, svara breytingum sem eru að verða á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni háskólanna til að fjölga nemendum í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði, en hlutfall útskrifaðra úr þessum greinum á Íslandi er lægra en á Norðurlöndunum. Það eru um 25% sem útskrifast úr tækni-, verkfræði-, stærðfræði- og vísindagreinum og þarf svolítið upp á til þess að við svörum því ákalli og þeim breytingum sem eru að verða á vinnumarkaði. Einnig nálgumst við þetta verkefni og setjum listir þar inn af því að mikilvægt er að nálgast raungreinar með skapandi aðferðafræði lista.

Síðan er fjallað um fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum. Með nýrri fjármálaáætlun sjáum við strax skýran árangur í því og með áætlun þessarar ríkisstjórnar um að fjölga læknanemum á tímabilinu upp í 90 og fjölga hjúkrunarfræðinemum verulega sem og í öðrum heilbrigðisvísindagreinum. Það er auðvitað forsenda þess að geta boðið upp á öfluga heilbrigðisþjónustu að geta mannað hana einnig. Það er líka þörf á auknu samstarfi háskólanna og er það því sett hér sem aðgerð þrjú, enda erum við í dag með sjö háskóla í frekar litlu samfélagi og eigum að einblína á það að bæta gæði námsins sem og að efla rannsóknir. Það verður einungis gert ef þessir skólar vinna miklu betur saman en í dag. Það að auka samstarf háskólanna hefur nú þegar reynst vel og lagt er til að áfram verði unnið að því. Ég trúi því að þannig getum við eflt gæði háskóla á Íslandi og stefnt að því að bjóða upp á háskólanám á heimsmælikvarða.

Við fyrstu úthlutun verkefna úr samstarfi háskólanna var horft til öflugra fjarnáms, fjölgunar erlendra stúdenta, fjölgunar í þessum STEAM- og heilbrigðisvísindagreinum sem og eflingar rannsóknarinnviða. Út úr því komu ótrúlega spennandi og öflug verkefni þar sem þetta var úthlutun með fjárhagslegum hvötum í þessi verkefni.

Síðan er það sameiginleg innritunargátt háskóla, en við höfum sett það á dagskrá að við sjáum að við erum að mennta færri í háskólum en löndin í kringum okkur, hvort sem litið er til Norðurlandanna eða OECD-landanna. Ákvörðun um háskólanám er stór í lífi hvers einstaklings og mikilvægt að hún byggist á haldgóðum og fjölbreyttum upplýsingum og að fjölbreyttara fólk sjái tækifæri til að fara og mennta sig í háskólunum okkar. Það er ekki gott hvað þróun samfélagsins varðar ef fjölbreytnin skilar sér ekki inn í háskólana, sama fjölbreytni og við sjáum í samfélaginu. Þá má líta til fólks með erlendan bakgrunn, sérstaklega drengja, en líka fólks með minni stuðning heima fyrir og er mikilvægt að hjálpa fólki að sjá tækifærin sem felast í því að skrá sig í háskóla.

Í fimmta lagi er stefnt að því, sem er mjög mikilvægt fyrir framfarir í háskólastarfi, að innleiða nýtt reiknilíkan sem unnið hefur verið að. Áhersla er á að líkanið hafi hæfilegan fjölda árangursmælikvarða, gagnsæi verði aukið og stefnu stjórnvalda í menntamálum, eins og Vísinda- og nýsköpunarráðs, verði komið á framfæri líkt og við sjáum í reiknilíkönum Norðurlandanna. Í dag er fjármögnun háskóla þannig að beinir hvatar eru ekki til staðar og hún ýtir frekar undir magn en gæði.

Í sjötta lagi er greint frá nýju Vísinda- og nýsköpunarráði sem þingið hefur nú þegar samþykkt og er mikilvægur hlekkur í því að efla stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar og til að efla íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni þjóðarinnar. Í þessu felast líka tækifæri til að horfa til lengri tíma, enn þá lengri en þessi þingsályktunartillaga gerir.

Í sjöunda lagi er áhersla lögð á aukna alþjóðavæðingu í háskóla- og vísindastarfi með sérstakri áherslu á fjölgun erlendra nema. Við þurfum að gæta þess að læra af öðrum háskólum og sinna samstarfi við alþjóðasamfélagið betur, en einnig að fá til liðs við okkur fleiri erlenda nema svo að þekking flæði ekki bara frá landinu. Fjöldi íslenskra nema sækir háskólanám erlendis. Það er mjög jákvætt, sérstaklega þegar þeir koma til baka með þekkinguna sína, en að sama skapi verðum við að stefna að því að fá fólk erlendis frá inn í okkar skóla.

Í áttunda lagi er áhersla lögð á aukið jafnrétti í háskólunum þar sem við sjáum að staðan gæti verið miklu betri. Ég kom aðeins inn á þetta hér áðan varðandi val á menntun og það að hjálpa fólki að sjá tækifærin sem felast í margs konar háskólamenntun, en við verðum að gæta þess að háskólarnir höfði til fjölbreytts hóps nemenda. Hér fellur m.a. undir jafnrétti óháð kyni, búsetu, efnahag, kynhneigð og uppruna og einnig er mikilvægt að fötluðum bjóðist aukin tækifæri til háskólanáms. Þá er lagt til að endurskoða lög um Menntasjóð námsmanna en við setningu laganna sem nú eru í gildi gáfu stjórnvöld fyrirheit um úrbætur og að reynslan af því nýja kerfi yrði metin.

Af markmiðum þá er hér markmið til árangurs í nýsköpun og hugverkaiðnaði. Að sama skapi er í greinargerð með frumvarpinu farið yfir núverandi stöðu og framtíðaráskoranir þar sem margt hefur gerst í þessum málaflokki hjá ríkisstjórninni á undanförnum árum, en enn eru gríðarleg tækifæri til umbóta, að gera betur til að ná enn þá meiri árangri. Aðgerðirnar eru í fyrsta lagi að stuðningsumhverfið verði skilvirkara og einfaldara, m.a. sjóðaumhverfið þar sem við verjum í dag 8 milljörðum í sjóðakerfi, þar af eru 55 sjóðir um nýsköpun og mjög misstórir. Þarna er tækifæri til að gera betur, einfalda kerfið og nýta fjármagnið betur af því að það er líka orðið flókið fyrir frumkvöðla og þungbært fyrir minni fyrirtæki og einstaklinga jafnvel að sækja um í þetta kerfi. Þarna er markmiðið að einfalda kerfið verulega, spara fjármagn en líka létta á því hvernig sótt er um og gera það rafrænt í meira mæli. Einnig er litið til endurskoðunar rannsókna og þróunar sem og stöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu.

Í öðru lagi er áhersla lögð á uppbyggingu sameiginlegra rannsóknarinnviða. Þar eru tækifæri og við erum að vinna að því að innleiða deilihagkerfi um innlendan tækjakost í þágu rannsókna og nýsköpunar. Þar eru gríðarleg tækifæri þar sem tækjakostur hér er víða mikill en ekki nýttur sem skyldi. Aðgengi að honum er oft mjög lokað og þarna eru gríðarlega spennandi tækifæri til að auka aðgengi frumkvöðla, rannsókna- og vísindamanna, fólks úr háskólanum og fólks úr stöndugum fyrirtækjum að tæknibúnaði sem þarf ekki að eiga heldur er hægt nýta gagnvart einhverri þróun. Það er mjög mikilvægt að frumkvöðlar og þekkingarfyrirtæki hafi aðgengi að hágæðarannsóknarinnviðum og deilihagkerfi með rannsóknarinnviði, þ.e. tæki og tól, getur verið gríðarlega spennandi lausn til þess að ná auknum árangri í háskólastarfi og atvinnulífi.

Í þriðja lagi er lögð til endurskoðun á lögverndun iðngreina, þ.e. að reynt verði að forgangsraða hvar lögverndun er mikilvæg og hvernig sé best að standa að henni. Í greiningum OECD á samkeppnishæfni hefur komið fram gagnrýni á þann mikla fjölda iðngreina sem krefst löggildingar hér á landi. Það er mikilvægt að fjarlægja einhverjar aðgangshindranir og einfalda umhverfið til þess að laga það að nútímanum en á sama tíma að leggja áherslu á að viðhalda löggildingu þeirra iðngreina sem mikilvægt er að lögvernda í þágu öryggis og heilsu, svo sem í byggingar- eða málmiðnaði, en fella hana út þar sem hennar er ekki þörf út frá almannahagsmunum og atvinnufrelsi.

Í fjórða lagi er lögð áhersla á aukna hagnýtingu réttindakerfa fyrir vernd hugverkaréttinda með áherslu á fjölgun einkaleyfisumsókna tengdum rannsóknum og nýsköpun, en mikilvægi hugverkadrifinna atvinnugreina hefur almennt aukist á alþjóðavettvangi og er mjög mikilvægt að Ísland verði ekki eftirbátur annarra þjóða á þeim vettvangi.

Í fimmta lagi er skýrt markmið um að liðka fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga. Þau frumvörp hafa nú þegar komið inn í þingið og hafa gengið hratt og vonum framar. Þar er bæði verið að leggja til að hraða afgreiðslu fyrir ákveðin störf og gefa erlendum nemendum dvalar- og atvinnuleyfi hér til þriggja ára, sem er afar ánægjulegt. Þá er líka lagt til að sjálfstætt starfandi einstaklingum verði gert kleift að reka sína atvinnustarfsemi hérlendis sem ekki hefur verið hægt fyrir einstaklinga utan Evrópska efnahagssvæðisins. Hérna eru gríðarleg tækifæri fyrir þau fyrirtæki sem vilja stækka á Íslandi sem myndu hafa aukinn aðgang að mannauði utan Evrópu.

Í sjötta lagi er innleiðing nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Það er gríðarlega mikilvægt, ætlum við að standa straum af þeim kostnaði og umfangi heilbrigðisþjónustu með öldrun þjóðarinnar að leiðarljósi, að nýsköpun og stafrænar lausnir verði innleiddar í heilbrigðiskerfið okkar. Þar eigum við framúrskarandi fyrirtæki og rannsókna- og vísindafólk sem hefur komið með lausnir á heimsmælikvarða sem nýttar eru um allan heim. Aftur á móti hefur hið opinbera heilbrigðiskerfi ekki verið að nýta sér mikið af þessum lausnum til að ná auknum árangri, stytta biðlista, veita betri þjónustu og létta á starfsfólki á sama tíma. Hér er mikið verk fyrir höndum, svo verður áfram og við höfum nú þegar hafið styrkveitingar til innleiðingar nýsköpunar.

Í sjöunda lagi er lagt til að hugvitið verði í auknum mæli virkjað í þágu loftslagsmála, sjálfbærni og matvælaframleiðslu til að takast á við margs konar samfélagslegar áskoranir. Staðan í loftslagsmálum krefst þess að við nýtum tæknilausnir, leyfum þeim að spreyta sig og spretta upp og að við styðjum við þær með öllum mætti, en einnig þarf að greina kosti þess að beina opinberum styrkjum og fjármögnun meira í átt að stuðningi við nýsköpun í þágu loftslagsmála.

Í áttunda lagi er talað um stefnumótun um sjálfbæran hugverkaiðnað en það er í samræmi við þingsályktun þess efnis. Þar eru ákveðnar áskoranir gagnvart því hvernig eigi að skilgreina iðnaðinn. Lagt var upp með það að koma með sjálfbæra iðnaðarstefnu sem gæti einfaldlega orðið mjög umfangsmikil atvinnustefna fyrir Ísland. Það er spurning hve mikið af þessari þingsályktunartillögu svarar þeirri stefnu og sýn en verið er að skoða hvernig við getum horft á þessa stefnu sem mikilvægt plagg í rannsóknum, þróun og nýsköpun og hvernig bæta megi framleiðni, fjölbreytni og sjálfbærni íslensks iðnaðar.

Í níunda lagi er alþjóðasamstarf í þágu rannsóknar, nýsköpunar og stafrænna mála. Það eru auðvitað miklar breytingar að eiga sér stað í tækninni, upplýsingatækni og gervigreind, þar sem Ísland má ekki verða eftirbátur annarra landa og við þurfum að átta okkur á þeim tækifærum sem í því felast á sama tíma og áskorunum. Hér er bæði verið að horfa á samstarfsvettvang, fræðslu, menntun og rannsóknir á sviði netöryggis, en líka miðstöð snjallvæðingar með stuðningi Digital Europe.

Í tíunda lagi er síðan horft til jafnra tækifæra í nýsköpunarverkefnum og fjármögnunar þeirra. Það hefur vakið athygli hvað stuðningur við nýsköpun er skakkur þegar kemur að stöðu kynjanna og hvað konur fara fyrir mikið færri fyrirtækjum sem fá stuðning frá hinu opinbera. Það þarf að skoða hvernig styrkveitingar verði aðgengilegar og hvaða tækifæri við höfum til að efla það að félög með eignarhaldi kvenna fái aukna athygli og eigi jöfn tækifæri í sjóðaumhverfinu okkar. Hér hefur m.a. verið bent á Tækniþróunarsjóð þar sem staðan hefur þó batnað verulega. Í fyrirtækjastyrkjum sáum við að konur fóru í fyrra í fyrsta skipti fyrir 40% verkefna.

Seinustu markmiðin eru til árangurs í fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Þar er einnig farið yfir núverandi stöðu þar sem Ísland er framúrskarandi, en við gætum orðið fyrsta gígabitaland í heimi og þannig fengju allir landsmenn aukin tækifæri til menntunar og fleiri starfstækifæri. Einnig er farið yfir þær áskoranir sem við mætum í þessum málum.

Í fyrsta lagi er lagt til að alþjóðlegt samstarf verði nýtt betur til uppbyggingar öflugs upplýsingasamfélags. Í öðru lagi er lagt til að við setjum okkur það markmið að Ísland verði gígabitaland. Það þýðir að allir vinnustaðir og heimili á Íslandi hafi aðgang að netsambandi um ljósleiðara og 5G og að almennt aðgengi að áreiðanlegum netsamböndum sé með besta móti. Þar eru ýmis tækifæri og eru taldar upp sérstakar aðgerðir til að ná því.

Í þriðja lagi er markmiðið að samfellt háhraðafarnet verði á öllum stofnvegum. Það er forsenda sambands við Neyðarlínuna, hagnýtingar upplýsingakerfa og mikið öryggisatriði. Unnið verði skipulega að uppbyggingu um landið allt til að ná fram samfelldu háhraðafarneti.

Í fjórða lagi er farið yfir aukið öryggi með nýja fjarskiptasæstrengnum, IRIS, sem verður tekinn í notkun. Hann eykur auðvitað samkeppnismarkað fjarskipta, fjölgar tækifærum á sviði gagnaflutninga og eykur öryggi fjarskipta við útlönd.

Í fimmta lagi verði mótuð umgjörð fyrir stafræna þróun í stjórnsýslunni, um þann málaflokk sérstaklega, og leidd fram tækifæri til að takast á við notkun opinberra upplýsinga, gervigreindar og rafrænnar auðkenningar.

Í sjötta lagi verði geta til viðbragða við netöryggisógnum og -atvikum betur tryggð, þ.e. að viðbúnaður verði efldur til ástandsgreiningar og geta netöryggissveitar Fjarskiptastofu aukin. Þarna þarf líka að endurskoða tilkynningargátt. Með aukinni fjárfestingu í máltækni og því hvað íslenskan er komin langt á veg í stafrænum heimi þá sjáum við líka miklu vandaðra netsvindl og ógnir sem við sáum ekki áður. Þar eru áskoranir sem við ætlum að takast á við.

Í sjöunda lagi er greint frá lykilaðgerðum í netöryggisstefnu, sem er mjög víðtæk og er sú fyrsta sinnar tegundar hjá íslenskum stjórnvöldum. Hægt er að sjá í mælaborði ráðuneytisins, sem er opið öllum, hvað framgangi þeirra aðgerða líður í dag.

Í áttunda lagi er markmið um að aðgengi að háhraðafjarskiptasambandi ýti undir störf og nám óháð staðsetningu sem er gríðarlega mikilvægt gagnvart þeim áskorunum að auka hér fjarnám, að allri byggð bjóðist aðgangur að áreiðanlegu háhraðafjarskiptasambandi og að fækka þeim byggðakjörnum þar sem innan við 80% heimila hafa aðgang um ljósleiðara.

Í níunda lagi er áhersla á jafnrétti við forgangsröðun aðgerða um netöryggi, sem snýr líka að dreifbýli, og að forgangsröðun aðgerða jafni stöðu kynja og þjóðfélagshópa.

Drög að þessari tillögu fóru í samráðsgátt og barst fjöldi umsagna og góðar athugasemdir sem reifaðar eru í greinargerð, en hér er farið vítt og breitt yfir sviðið með mjög spennandi áform og aðgerðir sem ég bind vonir við að nefndin fjalli vel um, enda af miklu að taka og mögulegt að fleiri en ein nefnd þurfi að taka þessa þingsályktunartillögu til umræðu.

Virðulegi forseti. Ég tel að með þessari framtíðarsýn og þingsályktunartillögu séum við að setja fram skýr markmið, skýra framtíðarsýn og aðgerðir í þessum málaflokkum. Það er forsenda vaxtar að áherslur í menntakerfinu séu skýrar, að við grípum tækifærin í samlegð þessara málaflokka vísinda, nýsköpunar, iðnaðar, upplýsingatækni, gervigreindar, öflugra fjarskipta og netöryggis. Verði tillagan, sem ég mæli hér fyrir, samþykkt þá hlakka ég til að takast á við þær aðgerðir og leysa úr læðingi ýmsa krafta í samfélaginu okkar sem ég trúi að við getum leyst enn betur úr læðingi. Farið er vel yfir það í greinargerð hvar við stöndum í málaflokkunum og víða stöndum við gríðarlega vel. Við höfum stigið stór skref á undanförnum árum í þessum málaflokkum og getum verið ánægð á mörgum sviðum, en ég trúi því að við getum gert enn þá betur og að samþætting þessara hugmynda og málaflokka geti verið mikilvægt hreyfiafl til enn stöndugra efnahagslífs með hugvitið að leiðarljósi, til nýrra starfa og tækifæra og vaxtar og verðmætasköpunar íslensks atvinnulífs.

Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til frekari umfjöllunar.