19. fundur
stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 150. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, fimmtudaginn 21. nóvember 2019 kl. 13:00


Mætt:

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (ÞSÆ) formaður, kl. 13:05
Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS) 1. varaformaður, kl. 13:05
Brynjar Níelsson (BN), kl. 13:05
Helga Vala Helgadóttir (HVH) fyrir Guðmund Andra Thorsson (GuðmT), kl. 13:05
Jón Steindór Valdimarsson (JSV), kl. 13:05
Kolbeinn Óttarsson Proppé (KÓP), kl. 13:05
Óli Björn Kárason (ÓBK), kl. 13:05
Þorsteinn Sæmundsson (ÞorS), kl. 13:05

Þórunn Egilsdóttir boðaði forföll.

Nefndarritari: Elín Valdís Þorsteinsdóttir

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 13:05
Fundargerðir 16. - 18. fundar samþykktar.

2) 184. mál - ráðherraábyrgð Kl. 13:06
Á fundinn kom Ragnhildur Helgadóttir frá Háskólanum í Reykjavík og gerði grein fyrir sjónarmiðum við málið ásamt því að svara spurningum nefndarmanna.

3) 139. mál - skipun rannsóknarnefndar til að fara yfir starfshætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum Kl. 13:22
Á fundinn komu Páll Rúnar M. Kristjánsson og Tryggvi Rúnar Brynjarsson og gerðu grein fyrir umsögnum um málið ásamt því að svara spurningum nefndarmanna.

4) Önnur mál Kl. 13:43
Formaður lagði til að nefndin fengi sjávarútvegsráðherra á næsta fund til að fjalla um hæfi hans vegna tengsla við útgerðarfyrirtækið Samherja. Nefndin fjallaði um málið.

Samþykkt að fjalla almennt um hæfisreglur stjórnsýslulaga og fá sérfræðinga á fund vegna málsins.

Kolbeinn Óttarson Proppé lagði fram eftirfarandi bókun:
Skilja mátti formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í frétt á RÚV, þann 19. nóvember sl., þannig að hvorki forsætisráðuneyti né dómsmálaráðuneyti hefðu svarað fyrirspurnum nefndarinnar varðandi gráan lista FATF. Forsætisráðuneytinu höfðu ekki borist neinar spurningar frá nefndinni þegar umrætt viðtal fór fram. Í því mikilvæga starfi sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sinnir er lykilatriði að farið sé rétt með staðreyndir og nefndin, og sérstaklega forysta hennar, verður að gera sömu kröfur á sjálfa sig um að fara rétt með og hún setur á aðra þætti stjórnsýslunnar sem nefndin hefur það hlutverk að fjalla um. Það er því ekki sannleikanum samkvæmt að forsætisráðuneytið hafi ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum um að svara spurningum innan tilskilins frests.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður lagði fram eftirfarandi bókun:
Formaður vill árétta þær skýringar sem hún gaf Kolbeini Óttarssyni Proppé er hann lagði fram bókun sína vegna ummæla formanns í viðtali við RÚV ohf. þann 19. nóvember síðastliðinn. Ummæli þess efnis að forsætisráðuneytið hefði ekki veitt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umbeðnar upplýsingar og gögn vegna frumkvæðis athugunar nefndarinnar á því hvers vegna Ísland væri komi á gráan lista hjá FATF, voru byggð á misskilningi og voru látin falla í góðri trú. Formaður mun koma leiðréttingu á framfæri við RÚV þar sem einnig verður beðist velvirðingar á mistökunum.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 14:12