76. fundur
umhverfis- og samgöngunefndar á 154. löggjafarþingi
haldinn í Smiðju, föstudaginn 14. júní 2024 kl. 18:35


Mætt:

Bjarni Jónsson (BjarnJ) formaður, kl. 18:35
Vilhjálmur Árnason (VilÁ) 2. varaformaður, kl. 18:35
Andrés Ingi Jónsson (AIJ), kl. 18:35
Bergþór Ólason (BergÓ), kl. 18:35
Halla Signý Kristjánsdóttir (HSK), kl. 18:35
Ingibjörg Isaksen (IÓI), kl. 18:35
Jakob Frímann Magnússon (JFM), kl. 18:35
Njáll Trausti Friðbertsson (NTF), kl. 18:35
Orri Páll Jóhannsson (OPJ), kl. 18:35

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir var fjarverandi.
Þórunn Sveinbjarnardóttir boðaði forföll.

Nefndarritari: Sigrún Rósa Björnsdóttir

Halla Signý Kristjánsdóttir, Bergþór Ólason og Jakob Frímann Magnússon tóku þátt í fundinum með fjarfundabúnaði.

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 18:35
Dagskrárlið frestað.

2) 1114. mál - tekjustofnar sveitarfélaga Kl. 18:35
Meiri hluti nefndar samþykkti tillögu formanns um afgreiðslu málsins frá nefndinni; Bjarni Jónsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson. Andrés Ingi Jónsson sat hjá.
Að nefndaráliti með breytingartillögu stendur meirihluti nefndar; Bjarni Jónsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson.
Jakob Frímann Magnússon áheyrnarfulltrúi lýsti sig samþykkan álitinu.
Andrés Ingi Jónsson boðaði álit minni hluta með breytingartillögu.

3) 924. mál - úrvinnslugjald Kl. 18:38
Meiri hluti nefndar samþykkti tillögu formanns um afgreiðslu málsins frá nefndinni: Bjarni Jónsson, Orri Páll Jóhannsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Njáll Trausti Friðbertsson. Andrés Ingi Jónsson sat hjá.
Að nefndaráliti meiri hluta með breytingartillögu standa Bjarni Jónsson, Orri Páll Jóhannsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir sem ritar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Andrés Ingi Jónsson boðaði álit minni hluta með breytingartillögu.

4) 315. mál - samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 Kl. 18:40
Meirihluti nefndar, Bjarni Jónsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson og Orri Páll Jóhannsson samþykkti eftirfarandi bókun vegna tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024?2028.)(þskj. 319 - 315. mál) og að afgreiðslu hennar frá nefndinni yrði frestað:

„Ljóst er orðið vegna stöðu 315. máls um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024?2028, að fresta beri afgreiðslu málsins til haustsins.
Mikilvægt er að tilteknar forsendur samgönguáætlunar, fjármögnun og samspil hennar við fjármálaáætlun liggi fyrir með skýrari hætti en nú, áður en hægt er að afgreiða hana.
Samspil framkvæmda og fjármögnunar þarf að skýra betur sérstaklega að því er varðar gjaldtöku og þær framkvæmdir sem fyrirhugað hefur verið að fjármagna með veggjöldum. Vinna verkefnastofu um gjaldtöku samvinnuverkefna hefur tekið lengri tíma en áætlað var í upphafi. Brýnt er að þeirri vinnu verði hraðað svo betur megi byggja á henni þau verkefni er fram koma í áætluninni. Að auki liggur fyrir að forsendur samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu eru nú til endurskoðunar og sú vinna á lokametrunum. Æskilegt er að sáttmálanum séu gerð viðeigandi skil í samgönguáætlun í ljósi umfangsins og að endurskoðuninni sé lokið.
Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á í nefndaráliti sínu um fjármálaáætlun að það hafi myndast misræmi milli gildandi samgönguáætlunar og fjárveitinga sem sé óviðunandi ástand. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar telur að skýra þurfi betur þetta misræmi áður en nefndin getur lokið umfjöllun sinni um samgönguáætlun.
Óvissa er um hvort að fjármögnun einnar framkvæmdar muni hafa áhrif á framkvæmd annarra samþykktra verkefna samgönguáætlunar. Ýmis verkefni áttu að vera hafin eða lokið samkvæmt gildandi samgönguáætlun. Skort hefur upp á að nefndin hafi fengið ítarleg og fullnægjandi gögn um stöðu stórra fjárfestingaverkefna sem varpa ljósi á framkvæmdir og fjármögnun. Það á ekki hvað síst við um framkvæmdir við Hornafjarðarfljót þar sem lagðar eru til heimildir í tillögu að samgönguáætlun til að vega upp á móti framkvæmdakostnaði sem er nú þegar fallinn til umfram upphaflegar forsendur. Þá standa yfir samningaviðræður við útboðsaðila um fjárhagslega umgjörð verkefnisins um Ölfusárbrú. Beðið er eftir niðurstöðum úr þeim viðræðum til að hægt sé að ákveða næstu skref.
Ljóst er að mikil viðhaldsþörf er orðin í vegakerfinu í heild sinni og aukið álag. Viðhaldsframkvæmdir virðast hafa farið umfram fjárheimildir á síðastliðnum tveimur árum m.a. vegna mikillar viðhaldsþarfar, verðlagshækkana og aukins fjármagnskostnaðar. Að þessu sögðu er mikilvægt að greina kostnaðaraukann með tilliti til framangreinds.
Fram hafa komið athugasemdir við það verklag sem er viðhaft og ljóst að skýra þarf stöðuna frekar sem er forsenda þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um næstu skref. Mikilvægt er að fyrir liggi fullnægjandi gögn um stöðu stórra fjárfestingaverkefna til að ná fram auknu samspili samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar.
Í ljósi þess sem hér er rakið telur meiri hluti nefndarinnar ákjósanlegra fyrir málaflokkinn og uppbyggingu samgangna í landinu að nefndin fái tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun til umfjöllunar að nýju í haust.“

Andrés Ingi Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun vegna málsins:
„Andrés Ingi Jónsson fagnar því að meirihlutinn komi loksins hreint fram og viðurkenni að hann sé búinn að slátra samgönguáætlun sín á milli, eftir mikið leikrit undanfarnar vikur um að sú væri ekki raunin. Þá getur hann hætt að teyma almenning og sveitarfélög um allt land á asnaeyrunum. Það er hins vegar verra fyrir samgöngumál í landinu að sundurlyndi stjórnarflokkanna sé svo mikið að annan þingveturinn í röð geti þeir ekki komið sér saman um jafnmikið grundvallarplagg og samgönguáætlun ? sérstaklega þegar umsagnaraðilar virtust raunverulega reikna með því að einhvers mætti vænta frá ríkisstjórninni. Þó að stjórnarflokkarnir voni væntanlega að þessi ákvörðun þeirra fari hljótt með því að hún sé afgreidd á fundi seint á föstudegi fyrir langa helgi, þá mun þetta ekki fara framhjá þeim mikla fjölda fólks sem undanfarnar vikur og mánuði hefur hvatt þingið til að afgreiða áætlunina sem hefur legið hjá nefndinni frá því í október.“

Nefndin hélt áfram umfjöllun um málið.

5) Önnur mál Kl. 18:54
Nefndin fjallaði um starfið framundan.

Andrés Ingi Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
„Vinnubrögð meirihlutans síðustu daga hafa verið fullkomlega óboðleg og endurspegla fullkomið virðingarleysi fyrir þeim mikilvægu málum sem nefndin hefur til umfjöllunar. Í dag var ráðgert að halda fund kl. 12.30 til að fjalla um drög að nefndarálitum í tveimur málum, en þeim fundi var frestað með sex mínútna fyrirvara, væntanlega vegna þess að ósætti hafi komið upp á milli stjórnarflokkanna um þau mál sem voru á dagskrá. Engar upplýsingar fylgdu um frekari hugmyndir að fundum, þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan undirritaðs með tölvupóstum á nefndina og nefndarritara kl. 14.11 og 16.40. Það var ekki fyrr en kl. 17.45 að formaður nefndarinnar hefur samband til að kanna hvort hægt væri að boða til fundar síðar um kvöldið og var þá tjáð að það væri hæpið að allir fulltrúar minnihlutans væru tiltækir með svo skömmum fyrirvara. Þrátt fyrir það ákveður formaður að boða til fundar kl. 18.30 á föstudegi - klukkustund eftir að þingfundi lauk án þess að nokkuð hefði komið fram um nauðsyn kvöldfunda nefnda. Að meirihlutinn telji sér óþarft að eiga einu sinni samtal við aðra flokka er vanvirðing við minnihlutann og rýrir til muna þinglega meðferð þeirra mála sem eru á dagskrá fundarins. Þó að meirihlutinn hafi setið sveittur að semja við sjálfan sig í allan dag um þau stjórnarmál sem flokkarnir keppast við að spilla hver fyrir öðrum, þá er ekki hægt að gera þá kröfu til fulltrúa annarra flokka að bíða þess daglangt að eitthvað komi út úr sambandsráðgjöf dagsins hjá stjórnarliðum.“

Fundi slitið kl. 18:57