Samantekt um þingmál

Kosningar til sveitarstjórna

537. mál á 141. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Að auka vægi persónukjörs við kosningar til sveitarstjórna og gefa kjósendum þar með meiri möguleika til að hafa áhrif á hvaða fulltrúar ná kjöri.

Helstu breytingar og nýjungar

Kosningar til sveitarstjórna verða áfram annaðhvort bundnar hlutfallskosningar eða óbundnar kosningar. Breytingin yrði fyrst og fremst sú að kjósendum við bundnar hlutfallskosningar gæfist kostur á að greiða einstökum frambjóðendum persónuatkvæði. Kjósendur mundu því að miklu leyti ákvarða röð efstu manna, þar sem samanlögð persónuatkvæði hvers frambjóðanda ákvarða endanlega röð hans á listanum.
Í frumvarpinu er miðað við aðferð persónukjörs sem notuð er við sveitarstjórnar- og fylkiskosningar í Noregi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

Kostnaður og tekjur

Kostnaður við kosningar til sveitarstjórna greiðist úr sveitarsjóðum og er því ekki gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnaraðilar töldu frest til að skila athugasemdum við frumvarpið of stuttan. Margir voru hlynntir möguleikum á persónukjöri en töldu mikilvægt að ríkið greiddi kostnað við kynningu. Samband Íslenskra sveitarfélaga benti meðal annars á háan kostnað sveitarfélaga vegna talningar atkvæða.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum

Noregur
Lov om valg til Stortinget, fylkesting og kommunestyrer (valgloven) LOV-2002-06-28-57.
Sjá einkum 6. kafla.



Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.