Samantekt um þingmál

Stjórn fiskveiða

570. mál á 141. löggjafarþingi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskstofna við Ísland og hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni.

Helstu breytingar og nýjungar

Nýtingarréttur núverandi kvótahafa verður takmarkaður við 20 ár en skipa á nefnd fyrir haustið 2013 sem ákveður framtíðarskipan nýtingarréttarins. Fjölmargar takmarkanir eru gerðar varðandi framsal kvóta milli aðila og byggðarlaga. Leigupottar ríkisins vegna strandveiða, línuívilnunar o.fl. verða efldir sem og kvótaþing, sem er nokkurs konar fiskveiðileiga ríkisins. Ráðherra verða veittar auknar heimildir til afskipta af greininni.

Breytingar á lögum og tengd mál

Ef frumvarpið verður að lögum falla úr gildi lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lög nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, lög nr. 38/1998, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, og lög nr. 12/1975, um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar sem háðar eru sérstökum leyfum. Einnig þarf að gera ýmsar breytingar á öðrum lögum sem tengjast sjávarútveginum.

  • Endurflutt: Stjórn fiskveiða, 657. mál (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra) á 140. þingi (26.03.2012)
  • Skylt mál: Veiðigjöld, 658. mál (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra) á 140. þingi (26.03.2012)

Kostnaður og tekjur

Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins kemur meðal annars fram að forsendur séu of óvissar á þessu stigi til að unnt sé að segja með nokkurri vissu fyrir um fjárhagsáhrif af lögfestingu þessara breytinga á stjórn fiskveiða fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Fjölmargar umsagnir bárust og eru þær flestar neikvæðar í garð frumvarpsins. Talið er að verði frumvarpið að lögum muni draga úr hagkvæmni greinarinnar, meðal annars vegna ýmissa sértækra aðgerða. Einnig er bent á að það muni hafa skaðleg áhrif á afkomu starfsfólks í greininni, koma illa við einstök byggðarlög og bitna á þjóðarbúinu í heild.

Afgreiðsla

Frumvarpið var afgreitt úr nefnd til 2. umræðu.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða : álitamál, greiningar, skýrslur og valkostir við breytingar á stjórn fiskveiða (2011). Reykjavík: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. 
Greinargerð um kosti og galla þess að aðskilja fjárhagslega fiskveiðar og vinnslu sjávarútvegsfyrirtækja (2011). Reykjavík: Hagfræðistofnun Háskólans.

Vakin er athygli á ítarlegri greinargerð með frumvarpinu.

Sjá einnig: Efst á baugi - Stjórn fiskveiða á innri vef Alþingis.

Fjölmiðlaumfjöllun

Ólíklegt að markmið náist [viðtal við Daða Má Kristófersson, dósent í auðlindahagfræði]. Sjónvarpið, fréttir kl. 19:00 2.2.2013.


Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.