Samantekt um þingmál

Lánasjóður íslenskra námsmanna

630. mál á 141. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að bregðast við þeim breytingum sem orðið hafa á íslensku menntakerfi frá því að gildandi lög voru sett og þeim athugasemdum sem komið hafa frá Ríkisendurskoðun og hagsmunaaðilum á undanförnum árum.

Helstu breytingar og nýjungar

Námsmenn sem ljúka námi á þeim tíma sem skipulag námsins gerir ráð fyrir geta fengið námsstyrk í formi niðurfærslu á námsláni. Ábyrgð ábyrgðarmanns fellur niður við 67 ára aldur eða við andlát. Lánasjóðnum verður heimilt að lána til aðfaranáms við háskóla. Sérstök heimild er til lána vegna skólagjalda í háskólanámi og starfsnámi á framhaldsskólastigi. Flóttamenn og þeir sem hafa hlotið hér dvalarleyfi eiga rétt til námslána.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992.

Kostnaður og tekjur

Verði ákvæði um styrkveitingar til þess að allir námsmenn hagi námsframvindu í samræmi við skipulag náms gæti viðbótarfjárþörf LÍN orðið nálægt 4,7 milljörðum kr. á ári.

Umsagnir (helstu atriði)

Margar og ítarlegar umsagnir bárust. ASÍ leggur áherslu á að komið verði til móts við einstaklinga á vinnumarkaði með litla formlega menntun. Blindrafélagið telur að 12. gr. frumvarpsins feli í sér ólögmæta mismunun og brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Háskóli Íslands bendir meðal annars á að ekki sé ljóst hvers vegna doktorsnám er undanskilið grein um niðurfellingu hluta námsláns. Samband íslenskra námsmanna erlendis telur ámælisvert að ekki sé boðið upp á óverðtryggð lán sem valkost.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Fréttatilkynning á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins um frumvarpið 28.2.2013.

Löggjöf á Norðurlöndum

Noregur
Lov om utdanningsstøtte LOV-2005-06-03-37.

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om statens uddannelsesstøtte (SU-loven) LBK nr 661 af 29/06/2009.

Svíþjóð
Studiestödslag (1999:1395).

Finnland
Lag om studiestöd 21.1.1994/65.

Fjölmiðlaumfjöllun

Katrín Jakobsdóttir. Betri lánasjóður. Fréttablaðið 1.3.2013.
Ekki ætlunin að mismuna nemendum. Vísir.is 27.3.2013.


Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.