Samantekt um þingmál

Sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu

257. mál á 144. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að starfrækja sérhæfða þjónustumiðstöð sem annast ráðgjöf, greiningu, meðferð, hæfingu og endurhæfingu á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu. 

Helstu breytingar og nýjungar

Lögð er til sameining á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Einnig verður TMF Tölvumiðstöð hluti af nýrri stofnun. 
Lagt til að stofnuninni verði falinn rekstur og umsýsla sérfræðiteymis sem starfar skv. 14. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, en því er ætlað að veita ráðgjöf um aðferðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.

Breytingar á lögum og tengd mál

Verði frumvarpið að lögum falla eftirfarandi lög úr gildi:
Lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins nr. 83/2003.
Lög um Heyrnar- og talmeinastöð nr. 42/2007.
Lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga nr. 160/2008

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Margar umsagnir bárust. Meðal annars voru gerðar athugasemdir við skilgreiningar hugtaka í frumvarpinu, varað var við aukinni gjaldtöku og lýst yfir áhyggjum af undirfjármögnun og miklu álagi sem nú er á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Margir lýstu jafnframt efasemdum um að sameining væri tímabær og að hún leiddi til fjárhagslegs ávinnings. Ýmsir lýstu þó stuðningi við frumvarpið en aðrir mæltu gegn samþykkt þess.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.


Síðast breytt 03.07.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.