Samantekt um þingmál

Handtaka og afhending manna til og frá Íslandi á grundvelli handtökuskipunar

463. mál á 144. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Mótun heildarlöggjafar um skilyrði handtöku og afhendingar manna, vegna refsiverðrar háttsemi, á milli Íslands, Norðurlandanna og aðildarríkja Evrópusambandsins.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sameinuð verði í einni löggjöf ákvæði laga nr. 12/2010 (norræn handtökuskipun) og ný lagaákvæði sem leiða af skuldbindingum Íslands vegna evrópsku handtökuskipunarinnar. Þörfin á nýju fyrirkomulagi um framsal byggist meðal annars á því að í auknum mæli eru afbrot skipulögð og ganga þvert á landamæri. Lagt er til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag varðandi afhendingu sakamanna milli ríkja sem komi í stað hefðbundins framsalsfyrirkomulags. Í samningunum er miðað við að embætti ríkissaksóknara skuli gefa út handtökuskipun, taka á móti og fjalla um hana og taka ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu (framsal) eða ekki. Einnig er gert ráð fyrir að tímafrestir um málsmeðferð og afhendingu verði styttri en nú er.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun) nr. 12/2010.
Lög um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984.

Kostnaður og tekjur

Gera má ráð fyrir nokkrum viðbótarútgjöldum hjá embætti ríkissaksóknara sem gætu svarað til hálfs ársverks en á móti kemur sparnaður í útgjöldum aðalskrifstofu innanríkisráðuneytis.

Umsagnir (helstu atriði)

Þær umsagnir sem bárust voru almennt jákvæðar.

Afgreiðsla

Afgreitt úr nefnd til 2. umræðu.



Síðast breytt 06.07.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.