Samantekt um þingmál

Meðferð einkamála og meðferð sakamála

616. mál á 145. löggjafarþingi.
Innanríkisráðherra.

Markmið

Lagður er grundvöllur að stofnun millidómstigs hér á landi þannig að dómstigin verði þrjú, þ.e. héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á málsmeðferðarreglum fyrir Hæstarétti í einkamálum og sakamálum sem taka mið af breyttu hlutverki Hæstaréttar sem æðsta dómstóls landsins í þriggja þrepa dómskerfi. 
Unnt verði að endurskoða öll atriði héraðsdóms fyrir Landsrétti, bæði í einkamálum og sakamálum.
Heimilt verður að kalla til sérfróða meðdómsmenn bæði í héraði og fyrir Landsrétti.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu verði betur fylgt fyrir Landsrétti, bæði í einkamálum og sakamálum, en unnt er samkvæmt gildandi lögum fyrir Hæstarétti. Almennur áfrýjunarfrestur í einkamálum verður styttur úr þremur mánuðum í fjórar vikur. 
Tiltölulega þröng heimild verður til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar ef þörf er á skjótri niðurstöðu í máli.
Áfrýjun á dómum Landsréttar til Hæstaréttar verður í öllum tilvikum háð leyfi Hæstaréttar. Lagt er til að kæruheimildir til Hæstaréttar verði mjög fáar.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs aukist um 109,7 milljónir króna á ársgrundvelli frá fjárlögum 2016, árin 2018–2021. 

Afgreiðsla

Frumvarpið varð óbreytt að lögum.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum.
 
Danmörk
Bekendtgørelse af lov om rettens pleje  LBK nr 1255 af 16/11/2015

Noregur
Lov om domstolene (domstolloven).  LOV-1915-08-13-5.

Svíþjóð
Rättegångsbalk ( 1942:740). 

Finnland
Rättegångs Balk 1.1.1734/4.


Síðast breytt 26.05.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.