Samantekt um þingmál

Vopnalög

235. mál á 146. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að takmarka aðgengi almennings að tilteknum efnum til sprengigerðar og tryggja þannig öryggi almennings.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til bann við heimatilbúnum sprengjum og að forefni til sprengiefnagerðar verði skilgreind í vopnalögum. Einnig er lagt til að ráðherra fái heimild til að kveða á um það í reglugerð hvaða forefni skuli háð takmörkunum, hvaða forefni skuli vera tilkynningarskyld, að öll viðskipti með tiltekin forefni til sprengiefnagerðar skuli skráð og hvaða viðmið eigi að viðhafa við mat á því hvort um grunsamleg viðskipti sé að ræða. Enn fremur er lagt til að almennum borgurum verði óheimilt að hafa í fórum sínum og nota forefni sprengiefna í meiri styrkleika en viðmiðunarmörk samkvæmt reglugerð kveða á um. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Vopnalög, nr. 16/1998.
  • Endurflutt: Vopnalög, 663. mál (innanríkisráðherra) á 145. þingi (04.04.2016)

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með lítils háttar breytingum. Hugtakið „almennir borgarar“ var útskýrt nánar og ráðherra er falið að tilgreina í reglugerð einn aðila sem fengi það hlutverk að taka við tilkynningum um grunsamleg viðskipti. Að auki voru samþykktar minni háttar orðalagsbreytingar.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna.


Síðast breytt 29.11.2017. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.