Samantekt um þingmál

Seðlabanki Íslands

790. mál á 149. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að setja ný heildarlög um Seðlabanka Íslands.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð í eina stofnun og yrði eftirlit með fjármálastarfsemi hjá Seðlabanka Íslands. Viðfangsefni sameinaðrar stofnunar mun, fyrir utan hefðbundna seðlabankastarfsemi, s.s. varðveislu gjaldeyrisforða, útgáfu seðla og myntar, starfrækslu greiðslukerfa o.s.frv., skiptast í: a) peningastefnu, b) fjármálastöðugleika og c) fjármálaeftirlit. Ekki eru lagðar til breytingar á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð þessara tveggja stofnana sameiginlega samkvæmt núgildandi lögum. Lúta breytingarnar fremur að sameiningu verkefna hjá einni stofnun og breytingum á stjórnskipan og fyrirkomulagi ákvarðanatöku, einkum í ljósi aukins vægis þjóðhagsvarúðar. Breytingunum er ætlað að auka skilvirkni og skýrleika ábyrgðar og bæta stjórnsýslu við ákvarðanatöku, nýtingu upplýsinga og möguleika á auknum gæðum greiningar og yfirsýnar. Lagt er til að bætt verði við tveimur varabankastjórum í Seðlabankanum og yrðu þeir þá þrír samtals. Gert er ráð fyrir að þrjár nefndir, m.a. skipaðar utanaðkomandi sérfræðingum, taki ákvarðanir um beitingu valdheimilda Seðlabankans varðandi peningastefnu og fjármálastöðugleika og á sviði fjármálaeftirlits. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir að sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð. 

Afgreiðsla

Samþykkt með breytingum meiri og minni hluta nefndarinnar. Breytingar meiri hlutans kveða m.a. á um að sérfræðingar, sem til stendur að ráðherra skipi, komi fyrst fyrir þingnefnd Alþingis, sem um málefni Seðlabankans fjallar, og að fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans gefi Alþingi skýrslu um störf sín með sama hætti og kveðið er á um í 11. gr. frumvarpsins um fundi peningastefnunefndar. Breytingar minni hlutans kveða m.a. á um að gerðar skuli auknar kröfur til hæfni fulltrúa í bankaráði Seðlabankans, að verkefni bankaráðs verði nánar skilgreind, að formennska fjármálaeftirlitsnefndar verði að jafnaði í höndum varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í stað seðlabankastjóra, að fjallað skuli um árangur markmiða í ársskýrslu Seðlabankans og að fram skuli fara ytra mat á starfsemi Seðlabankans á fimm ára fresti.

Aðrar upplýsingar







Síðast breytt 26.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.