Samantekt um þingmál

Verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræn eignarskráning

370. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að draga úr kerfisáhættu og stuðla að fjármálastöðugleika og í því skyni bæta verðbréfauppgjör og gera ríkari kröfur til starfsemi verðbréfamiðstöðva.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð ESB nr. 909/2014,  sem breytir umgjörð um starfsemi verðbréfamiðstöðva töluvert og felur í sér auknar kröfur til verðbréfamiðstöðva, uppgjörs fjármálagerninga og verðbréfauppgjörskerfa.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna falla úr gildi lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, og jafnframt verða breytingar á lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, lögum um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017, og lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum. Girt var fyrir að stjórnarmenn verðbréfamiðstöðvar geti sinnt lögmannsstörfum fyrir aðra verðbréfamiðstöð. Einnig var samþykkt að mæla fyrir um skyldu í stað heimildar Fjármálaeftirlitsins til að beina fyrirmælum til hvers þess sem ber ábyrgð á broti gegn ákvæðum laganna um að hætta framferðinu og endurtaka það ekki.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 frá 23. júlí 2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012.


Síðast breytt 30.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.