Samantekt um þingmál

Úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs

381. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs.

Helstu breytingar og nýjungar

Gert er ráð fyrir að ráðherra, sem fer með fjármál ríkisins, fari með stjórn ÍL-sjóðs og úrvinnslu og uppgjör eigna og skulda sjóðsins til þess að draga úr áhættu og kostnaði ríkissjóðs sem tilkominn er vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda sjóðsins.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Áhrif frumvarpsins á ríkissjóð ráðast af því að hversu miklu leyti ÍL-sjóði tekst að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs af sjóðnum. Í frumvarpi til fjárlaga 2020 kemur fram að mikið misvægi sé á bókfærðu virði eigna og skulda sjóðsins eða sem nemi um 200 milljörðum kr. um mitt ár 2019. Sú upphæð endurspeglar væntanlegan kostnað ríkissjóðs af því að gera upp eignir og skuldir sjóðsins á þeim tímapunkti. Rúm lausafjárstaða sjóðsins og langur líftími skuldbindinganna gerir það að verkum að öðru óbreyttu að ríkissjóður muni ekki þurfa að leggja sjóðnum til lausafé fyrr en um miðjan fjórða áratug þessarar aldar.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. M.a. var sett ákvæði um skyldu ráðherra, en ekki einungis heimild, til að setja reglugerð þar sem m.a. komi fram áhættuvilji og áhættustýring ÍL-sjóðs ásamt fleiri atriðum. Að auki er ráðherra gert skylt, en ekki einungis heimilað, að skipa verkefnisstjórn til ráðgjafar um starfsemi sjóðsins og að stjórnarmenn skuli skipaðir til þriggja ára í senn að hámarki.


Síðast breytt 13.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.