Samantekt um þingmál

Fjöleignarhús

468. mál á 150. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að breyta lögum um fjöleignarhús þannig að unnt verði að koma fyrir í fjöleignarhúsum hleðslubúnaði fyrir rafknúnar bifreiðar. Með þessu verður stuðlað að rafbílavæðingu í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum.

Helstu breytingar og nýjungar

Verði frumvarpið að lögum ber húsfélagi skylda til að bregðast við beiðni eiganda í fjöleignarhúsi um að komið verði upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla við eða á bílastæði á lóð fjöleignarhússins með því að láta gera úttekt á áætlaðri framtíðarþörf fyrir slíkan búnað og hvað til þurfi til að mæta áætlaðri þörf. Lagt er til að ekki þurfi samþykki annarra eigenda fyrir uppsetningu hleðslubúnaðar við eða á bílastæði á lóð fjöleignarhúss nema það verði til þess að meira en helmingur sameiginlegra og óskiptra bílastæða verði einungis til nota við hleðslu rafknúinna bíla. Þá eru lagðar til reglur um skiptingu kostnaðar vegna uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafknúna bíla. Er gert ráð fyrir því að kostnaður verði sérkostnaður eiganda að því marki sem um séreign viðkomandi er að ræða en sameiginlegur öllum sem rétt hafa til að nota bílastæðið þegar um sameign er að ræða. Enn fremur er lagt til að húsfélög fái heimild til að krefjast hóflegrar mánaðarlegrar þóknunar frá þeim eigendum sem nýta hleðslubúnað fyrir rafbíla.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingum, sem voru að mestu leyti tæknilegar.

Aðrar upplýsingar

Álit kærunefndar húsamála í máli nr. 90/2018.

Innviðir fyrir orkuskipti. Tillögur starfshóps um aðgerðir. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið, maí 2019.


Síðast breytt 10.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.