Samantekt um þingmál

Kría - sprota- og nýsköpunarsjóður

711. mál á 150. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Helstu breytingar og nýjungar

Lögð er til stofnun sérstaks sjóðs í eigu ríkisins, Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs, sem hefði það hlutverk að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum, svokölluðum vísisjóðum, sem aftur fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið verður á um í reglugerð ráðherra. Vísisjóðir, sem eru sérhæfðir áhættufjárfestingarsjóðir, þykja mikilvægir til stuðnings við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem byggjast að mestu eða öllu leyti á hugviti. Með stofnun Kríu verður stuðlað að því að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki eigi kost á áhættufjármagni á fyrstu stigum uppbyggingar þeirra. Sá hluti atvinnulífsins sem byggist á nýsköpun og hugviti öðlast þá meiri og betri möguleika til vaxtar og þróunar í alþjóðlegu umhverfi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir því að 7.650 milljónum kr. verði varið úr ríkissjóði til stofnunar hins nýja sjóðs á árunum 2020 til 2024. Gert er ráð fyrir því að langtímaáhrif sjóðsins á ríkissjóð verði jákvæð. m.a. vegna aukinna skatttekna og fjölgunar starfa.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeim breytingum að ákvarðanir Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs verða endanlegar á stjórnsýslustigi og hætt var við að kveðið yrði á um tíðni fjárfestingarákvarðana stjórnar.

Aðrar upplýsingar

Nýsköpunarlandið Ísland. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, október 2019.



Síðast breytt 17.09.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.