Samantekt um þingmál

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

712. mál á 150. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að stuðla að því að íslensk ferðaþjónusta þróist á grundvelli sjálfbærni, jafnvægis og aukin áhersla verði á svæðisbundna þróun með því að byggja upp ferðamannastaði, viðhalda þeim og vernda, tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru ferðamannastaða.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að gildissviði laga nr. 75/2011 verði breytt þannig að auk fyrri markmiða geti Framkvæmdasjóður ferðamannastaða stutt við markmið um að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og einnig stutt svæðisbundna þróun á vegum sveitarfélaga og einkaaðila. Enn fremur er lagt til að unnt verði að fá fjármagn úr sjóðnum til framkvæmda við ferðamannaleiðir, þ.e. gönguleið, reiðleið eða reiðhjólastíg. Lagðar eru til breytingar á ákvæði laganna um styrkhæf verkefni og er þeim ætlað að afmarka nánar hvaða framkvæmdir það eru sem heimilt er að fjármagna með fé úr sjóðnum. Lagt er til að afdráttarlaust verði að framkvæmdir á landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum séu ekki styrkhæfar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir fjárhagslegum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt óbreytt.

Aðrar upplýsingar

Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.


Síðast breytt 07.09.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.