Samantekt um þingmál

Útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga

717. mál á 150. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að stuðla að gagnsærri og stöðugri framkvæmd laganna. Að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma til hagsbóta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi og bæta þar með meðferð opinbers fjár.

Helstu breytingar og nýjungar

Á meðal þeirra álitaefna sem frumvarpinu er ætlað að taka á eru atriði er snerta forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna, málsmeðferðartími umsókna barna um alþjóðlega vernd, hvenær taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, hlutverk Barnaverndarstofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málefnum fylgdarlausra barna sem sækja um slíka vernd hér á landi, orðalag útilokunarástæðna við ákvörðun um ríkisfangsleysi, réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði íslenskra stjórnvalda, fjölskyldusameiningu flóttafólks og afturköllun verndar sem veitt er á grundvelli slíkrar sameiningar og hvenær veita beri þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á skv. 33. gr. laganna og hvenær sé eðlilegt að hún falli niður. Lagt er til að stoð Dyflinnarreglugerðarinnar sé styrkt og málsmeðferð umsókna einfölduð þegar umsækjandi hefur þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki svo auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma. Jafnframt eru breytingar lagðar til á nánar tilgreindum ákvæðum laganna varðandi útgáfu dvalarleyfa. Er m.a. lagt til að doktorsnemar megi vera staddir hér á landi þegar þeir sækja um dvalarleyfi í fyrsta skipti, að heimilt verði að endurnýja dvalarleyfi vegna vistráðningar og að heimilt verði að veita útlendingi sem misst hefur starf sitt sem krefst sérfræðiþekkingar dvalarleyfi til þriggja mánaða til þess að hann geti leitað sér annars starfs á grundvelli sérþekkingar sinnar. Loks eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að veita útlendingi tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi í undantekningartilvikum, hafi honum áður m.a. verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið. Í frumvarpinu er lagt til að útlendingar sem fengið hafa slík dvalarleyfi verði undanþegnir frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um útlendinga, nr. 80/2016.
Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
  • Endurflutt: útlendingar, 838. mál (dómsmálaráðherra) á 149. þingi (10.04.2019)

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér útgjaldabreytingar fyrir ríkissjóð sem nokkru nemur en gefi færi á aukinni skilvirkni í málsmeðferð útlendingamála.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd að lokinni 1. umræðu.

Aðrar upplýsingar



Útlendingastofnun: Málsmeðferð og verklagsreglur. Ríkisendurskoðun, nóvember 2018.


Síðast breytt 07.09.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.