Samantekt um þingmál

Mannanöfn

161. mál á 151. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að einfalda reglur um mannanöfn og afnema eins og unnt er þær takmarkanir sem eru í dag á skráningu nafna, bæði eiginnafna og kenninafna, og auka heimildir til nafnbreytinga. Að jafna rétt manna til notkunar nafna.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér endurskoðun laga um mannanöfn. Lagðar eru til víðtækari heimildir til skráningar nafna og kenninafna en núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Með rýmri heimildum til skráningar nafna er ekki talin þörf á að hafa mannanafnanefnd og er því ráðgert að leggja hana niður. Lagt er til að ekki verði takmörk á fjölda eiginnafna og kenninafna. Einnig er lagt til að felldar verði niður reglur um að eiginnöfn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þá er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að nafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að það skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Gert er ráð fyrir því að hægt verði að taka upp ný ættarnöfn. Loks er lagt til að hætt verði að halda mannanafnaskrá í þeirri mynd sem hún er í dag.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna falla brott lög um mannanöfn, nr. 45/1996, og jafnframt verða breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð sem nokkru nemur.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.


Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.