Samantekt um þingmál

Fjárhagslegar viðmiðanir

312. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að innleiða viðmiðanareglugerð ESB í íslenskan rétt.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að reglugerð (ESB) nr. 2016/1011, viðmiðanareglugerðin, verði lögfest. Með „viðmiðunum“ er í stórum dráttum átt við tölur sem eru almenningi aðgengilegar, eru ákvarðaðar með reglulegu millibili á grundvelli tiltekinna verðgilda og eru notaðar til að ákvarða greiðslur, virði fjárhagslegra gerninga eða eignaskiptingu fjárfestingarsjóða. Reglugerðin hefur að geyma reglur um gerð og notkun viðmiðunarvísitalna á borð við EURIBOR sem liggja til grundvallar ýmsum samningum á sviði fjármálamarkaðar. Meðal annars er mælt fyrir um starfsleyfi og starfshætti aðila sem taka saman viðmiðunarvísitölur, aðferða­fræði við vinnslu þeirra og eftirlit.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, og lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum tæknilegum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1011 frá 8. júní 2016 um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir í fjármálagerningum og fjárhagslegum samningum eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða og um breytingu á tilskipunum 2008/48/EB og 2014/17/ESB og reglugerð (ESB) nr. 596/2014 (viðmiðanareglugerðin).


Síðast breytt 03.02.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.