Samantekt um þingmál

Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

354. mál á 151. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sett verði heildarlög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið byggir á víðtækri skilgreiningu á hugtakinu farsældarþjónusta sem er nýtt yfirheiti yfir þjónustu sem mælt er fyrir um í lögum að sé veitt á vegum ríkis og sveitarfélaga sem á þátt í að efla eða tryggja farsæld barns. Gert er ráð fyrir að fram fari víðtæk stefnumótun hvað varðar samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Lagt er til að kveðið verði á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna og að mælt verði fyrir um skyldu til að stigskipta allri farsældarþjónustu. Gert er ráð fyrir að öll börn og foreldrar þeirra sem á þurfi að halda hafi rétt til aðgangs að aðila sem getur með tilgreindum hætti aðstoðað þau við að fá viðeigandi þjónustu án hindrana. Þá er gert ráð fyrir að markaður verði skýr farvegur fyrir samstarf mismunandi þjónustukerfa.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkisins fyrstu árin eftir gildistöku laganna verði 400 milljónir kr. vegna nýrra verkefna hjá heilbrigðiskerfi, löggæslu og framhaldsskólum. Þar að auki er áætlaður kostnaður vegna innleiðingar á þeim tíma 100 milljónir kr. árin 2021 og 2022 og 50 milljónir kr. árin 2023 og 2024.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Viljayfirlýsing um aukið samstarf í þágu barna. Félagsmálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, 7. september 2018.

Þingmannanefnd um málefni barna. Félagsmálaráðuneytið, 8. október 2018.

Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna. Félagsmálaráðuneytið, 22. janúar 2019.


Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.