Samantekt um þingmál

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

356. mál á 151. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að renna styrkari stoðum undir starfsemi Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sett verði sérstök lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála en með stofnun hennar verður ráðuneytisstofnunin Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar lögð niður. Lagt er til að styrkja eftirlit með gæðum velferðarþjónustu sem Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar hefur hingað til sinnt. Gert er ráð fyrir að nýja stofnunin muni m.a. fara með eftirlit með gæðum samþættingar þjónustu í þágu barna og eftirlit með barnaverndar­þjón­ustu sem nú er sinnt af Barnaverndarstofu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, barnaverndarlögum, nr.  80/2002, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008, og lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist varanlega um 48 milljónir kr. á ári vegna fjögurra nýrra stöðugilda hjá nýju stofnuninni stofnun auk tímabundins stofnkostnaðar í upphafi sem metinn er á milli 15–20 milljónir kr. 

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Viljayfirlýsing um aukið samstarf í þágu barna. Félagsmálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, 7. september 2018.

Þingmannanefnd um málefni barna. Félagsmálaráðuneytið, 8. október 2018.

Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna. Félagsmálaráðuneytið, 22. janúar 2019.


Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.