Samantekt um þingmál

Breytingar á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga

478. mál á 151. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að tryggja að sveitarfélög hafi svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á íslenskt efnahagslíf og búskap hins opinbera. Að auðvelda sveitarfélögum að koma til móts við rekstraraðila sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna faraldursins þannig að sveitarfélög geti sýnt aukinn sveigjanleika við innheimtu. Að tryggja starfhæfi sveitarstjórnar og auðvelda ákvarðanatöku sveitarfélaga við óvenjulegar aðstæður.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér heimildir fyrir sveitarfélög til að víkja frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga til lengri tíma en nú er gert í gildandi lögum. Þá eru lagðar til auknar heimildir Lánasjóðs sveitarfélaga til að lána sveitarfélögum vegna rekstrarhalla. Auk þess er gert ráð fyrir að sveitarfélögum sé veitt meira svigrúm við innheimtu fasteignagjalda. Þá eru lagðar til breytingar á sveitarstjórnarlögum sem veita sveitarfélögum svigrúm til að takast á við óvenjulegar aðstæður, s.s. vegna farsóttar.

Breytingar á lögum og tengd mál

Sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011.
Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
Lög um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 150/2006.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með breytingum sem voru tæknilegs eðlis.


Síðast breytt 26.03.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.