Samantekt um þingmál

Stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda

625. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og lögaðila. Að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að starfrækt verði stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og gert er ráð fyrir þeirri meginreglu að stjórnvöld sendi gögn til einstaklinga og lögaðila með rafrænum hætti í pósthólfið. Frumvarpið tekur til allra gagna, þ.m.t. tilkynninga, ákvarðana og ákvaða sem viðtakandi er bundinn af, m.t.t. kærufrests og efni gagnanna að öðru leyti. Sú aðferð að senda gögnin rafrænt myndi hafa sömu réttaráhrif og þegar gögn berast með bréfpósti eða öðrum hætti. Gert er ráð fyrir að einstaklingar sem hafa fengið útgefna kennitölu samkvæmt lögum um skráningu einstaklinga og lögaðilar sem skráðir eru með kennitölu í fyrirtækjaskrá eigi hver sitt pósthólf sem að jafnaði þeir einir hafa aðgang að.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að breytt fyrirkomulag við birtingar hafi í för með sér hagræðingu fyrir ríkissjóð á bilinu 300–700 milljónir kr. á ári.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum breytingum, m.a. þeirri að ráðherra er skylt, en ekki heimilt, að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Aðrar upplýsingar

Island.is.


Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.