Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld

697. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að efla skattalegt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja, einstaklinga og lögaðila og að gera nauðsynlegar leiðréttingar og breytingar á skattalöggjöf.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að stjórnarmenn nýsköpunarfyrirtækja sem kaupa hlutabréf samkvæmt kauprétti í fyrirtækinu geti frestað skattalegri meðferð kauprétta þar til bréfin eru seld. Lagt er til að skattlagning á hagnaði lögaðila vegna breytanlegra skuldabréfa verði frestað um tvenn áramót (vegna viðskipta með breytanleg skuldabréf við lögaðila sem fellur undir lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og uppfyllir skilgreiningu laganna um að starfa að rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum, óháð því hvort öll slík verkefni hafi hlotið staðfestingu Rannís). Einnig er lagt til að söluhagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar, sem myndast þegar hlutabréfum er skipt fyrir hlutabréf í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi samkvæmt lögum um tekjuskatt, teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en viðtökuhlutabréfin eru seld. Lagt er til að fjöldi nefndarmanna í yfirskattanefnd taki breytingum, að starfsreglur nefndarinnar um ákvörðun málskostnaðar úr ríkissjóði verði lögfestar og að lögin einskorðist ekki við ákvarðanir ríkisskattstjóra heldur taki einnig til annarra stjórnvalda. Lagt er til að kaupfélög og önnur samvinnufélög verði undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts til jafns við hlutafélög vegna fjárhæðar arðs sem þau hafa fengið úthlutaða eða greidda. Enn fremur er lagt til að tekið verði gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs er snýr að viðurkenningu á hjónavígslu sem framkvæmd er erlendis og vafi leikur á hvort uppfyllt eru skilyrði fyrir skráningu hjónavígslunnar. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Lög um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.
Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
Almenn hegningarlög, nr. 19/1940.
Lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.
Lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir því að fjárhagsleg áhrif tillagna um breytta skattlagningu kaupréttar, skipta á hlutabréfum og breytanlegra skuldabréfa verði innan tekjuramma fjárlaga til framtíðar séð þótt einhver tilfærsla kunni að eiga sér stað í tekjuskattsgreiðslum milli ára. Ekki er talið að tillaga frumvarpsins um að kaupfélög og önnur samvinnufélög verði undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts til jafns við hlutafélög og einkahlutafélög sem falla undir 1. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, vegna fjárhæðar arðs sem þau hafa fengið úthlutaða eða greidda, hafi bein áhrif á tekjur ríkissjóðs en hún mun hins vegar væntanlega hafa einhver áhrif á sjóðsstreymi. Gert er ráð fyrir að aðrar breytingartillögur muni samanlagt ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Í stað þess að skattleggja kaupréttartekjur stjórnarmanna nýsköpunarfyrirtækja við sölu hlutabréfa var ákveðið að skattleggja þau við eigendaskipti á viðkomandi hlutabréfum óháð því hvernig eignayfirfærsluna ber að, s.s. við gjöf, slit á fjárfélagi hjóna eða við yfirtöku. Samþykkt var að skipti einstaklingur utan atvinnurekstrar á hlutum í sprotafyrirtæki fyrir hlutabréf í nýstofnuðu hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi samkvæmt lögum um tekjuskatt skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutina lét af hendi. Skal kaupverð þeirra eignarhluta sem hann eignast við skiptin ákvarðast jafnt kaupverði þeirra hluta sem látin voru af hendi.

Aðrar upplýsingar

Nýsköpunarstefna stjórnvalda til ársins 2030. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, október 2019.


Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.