Samantekt um þingmál

Meðferð sakamála

518. mál á 152. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að bæta réttarstöðu brotaþola, fatlaðs fólk og aðstandenda látinna einstaklinga við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum.

Helstu breytingar og nýjungar

Meðal annars er lagt til að aðgangur réttargæslumanns að gögnum á rannsóknarstigi verði í grundvallaratriðum sá sami og aðgangur verjanda, að brotaþola verði heimilt að vera viðstaddur lokað þinghald eftir að hann hefur gefið skýrslu, að réttargæslumanni verði milliliðalaust heimilað að beina spurningum til skýrslugjafa fyrir dómi og að brotaþola verði í ríkara mæli skipaður réttargæslumaður við meðferð áfrýjaðra mála. Þá er lagt til að dómari geti ákveðið í vissum tilvikum að skýrsla af fötluðum brotaþola eða vitni verði tekin í sérútbúnu húsnæði sem og að dómari geti kvatt kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku af fötluðu vitni. Enn fremur er lagt til að aðstandanda látins einstaklings, í þeim tilvikum þegar rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans, verði heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
Lög um fullnustu refsinga, nr. 15/2016.
  • Skylt mál: Meðferð sakamála, 718. mál (dómsmálaráðherra) á 151. þingi (07.04.2021)

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á ríkissjóð sem rúmist innan fyrirliggjandi útgjaldaramma viðkomandi málefnasviðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar lagatæknilegum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Réttlát málsmeðferð þolenda kynferðisbrota með tilliti til þolenda kynferðisbrota. Greinargerð um leiðir til að styrkja réttarstöðu brotaþola. Unnið af Hildi Fjólu Antonsdóttur fyrir stýrihóp forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferð islegt ofbeldi, maí 2019.


Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om rettens pleje (retsplejeloven) LBK nr 1835 af 15/09/2021.

Finnland
Lag om offentlighet i myndigheternas verksamhet  21.5.1999/621.
Lag om rättegång i brottmål 11.7.1997/689.

Noregur
Lov om rettergangsmåten i straffesaker (straffeprosessloven) LOV-1981-05-22-25.

Svíþjóð
Offentlighets- och sekretesslagen ( 2009:400).
Rättegångsbalk ( 1942:740).


Síðast breytt 29.09.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.