Samantekt um þingmál

Virðisaukaskattur

679. mál á 152. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að styðja við starfsemi björgunarsveita með því að endurgreiða þeim virðisaukaskatt vegna vinnu við að sérútbúa ökutæki þeirra. Að fjölga rafmagnsbílum í umferð sem styður við loftlagsmarkmið stjórnvalda og orkuskipti stjórnvalda í samgöngum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að breyta lagaákvæði um heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til björgunarsveita þannig að sérstaklega verði tekið fram að heimilt sé að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu við að sérútbúa ökutæki björgunarsveita til björgunarstarfa. Þá er lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði þess efnis að auka fjöldatakmörkun rafmagnsbíla sem hlotið geta ívilnun frá virðisaukaskatti úr 15.000 bifreiðum í 20.000. Samhliða eru lögð til ný fjárhæðarmörk ívilnunar sem taki gildi 1. janúar 2023. Að endingu er lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði að því er varðar endursölu notaðra vistvænna bifreiða þannig að kveðið sé skýrt á um hver skilyrði hennar skuli vera.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs vegna niðurfellingar á virðisaukaskatti af rafmagnsbílum verði 5,5 milljarðar kr., þ.e. 2,4 milljarðar kr. árið 2022 og 3,1 milljarður kr. árið 2023. Þá er gert ráð fyrir að með því að skýra frekar heimild til undanþágu frá virðisaukaskatti við endursölu vistvænna bifreiða muni tekjutap ríkissjóðs nema allt að 100 milljónum kr. árið 2022 og allt að 150 milljónum kr. árið 2023.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeirri breytingu að skráningarskylda léttra bifhjóla í flokki I í ökutækjaskrá var afnumin og að skráningarskyldan verður eingöngu miðuð við létt bifhjól í flokki II. Með því verður heimilt að fella niður virðisaukaskatt af léttum bifhjólum að hámarki 96 þúsund kr.


Síðast breytt 26.09.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.