Samantekt um þingmál

Afvopnun o.fl.

953. mál á 153. löggjafarþingi.
Utanríkisráðherra.

Markmið

Að auka alþjóðaöryggi og tryggja virðingu fyrir mannréttindum, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, með því m.a. að hafa eftirlit með, banna eða leyfisbinda útflutning á vopnum og hlutum með tvíþætt notagildi sem nota má beint eða óbeint til hryðjuverka, bælingar innan lands eða í hernaðarlegum tilgangi, svo og hafa eftirlit með þjónustu og fjárfestingum þeim tengdum. Að banna tiltekin vopn, hluti og háttsemi sem þeim tengjast í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Að vinna að markmiðum þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sameina í ein heildarlög ákvæði sex núgildandi laga um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði afvopnunar, vígbúnaðar og útflutningseftirlits. Með þessu er stefnt að því að skýra og styrkja núverandi reglur án þess að bæta við nýjum ákvæðum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, nr. 17/2000, lög um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, nr. 25/2001, lög um framkvæmd samnings um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra, nr. 26/2001, lög um framkvæmd samnings um klasasprengjur, nr. 83/2015, lög um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010, lög um réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu og samnings um opna lofthelgi, nr. 90/1994. Við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á lögum um loftferðir, nr. 80/2022, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, og lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, nr. 98/1992.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar




Síðast breytt 16.07.2024. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.