Tilkynningar

Nefndarferð utanríkismálanefndar til Tyrklands

3.6.2024

Utanríkismálanefnd Alþingis fór í þriggja daga heimsókn til Tyrklands 29.–31. maí. Tyrkland er aðildarríki NATO og hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Markmið heimsóknarinnar var að efla tvíhliða samskipti þinganna, ræða stjórnmálastöðuna í Tyrklandi og hlutverk Tyrklands á alþjóðavettvangi m.a. gagnvart yfirstandandi átökum í Úkraínu annars vegar og Miðausturlöndum hins vegar.

Á meðan á heimsókninni stóð fundaði nefndin í tyrkneska þinginu og átti fundi með utanríkismálanefnd og Evrópunefnd þingsins. Þá voru fundir haldnir með fulltrúum stjórnmálaflokkanna CHP – Lýðveldisflokki alþýðunnar og DEM – Flokki jafnréttis og lýðræðis, sem eru tveir stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir í þinginu. Þá átti nefndin fund með Mehmet Kemal Bozay, aðstoðarutanríkisráðherra landsins. Á fundunum var rætt um tvíhliða samskipti Íslands og Tyrklands og hvernig efla megi þau tengsl og viðskipti milli landanna t.a.m. möguleika á að koma á beinum flugsamgöngum. Þá var rætt um stöðu stjórnmála og mannréttinda í Tyrklandi, mikilvægs hlutverks þess í að styðja við Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands, stöðu mála í Miðausturlöndum, málefni flóttamanna og samskipti Tyrklands við Evrópuríki. Einnig var fjallað um um mannréttindamál, jafnréttismál, réttindi hinsegin samfélagsins og fjölmiðlafrelsi í Tyrklandi.

Nefndin átti einnig fundi með svæðisskrifstofum flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, fólkflutningastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UN Women og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Loks átti nefndin fundi með fulltrúa félagasamtakanna Blaðamenn án landamæra og fulltrúum félagasamtaka sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks í Tyrklandi.

Af hálfu utanríkismálanefndar tóku þátt í heimsókninni Diljá Mist Einarsdóttir formaður, Logi Einarsson 2. varaformaður, Birgir Þórarinsson, Gísli Rafn Ólafsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir auk Stígs Stefánssonar og Eggerts Ólafssonar, starfsmanna nefndarinnar.

Ferd-utanrikismalanefndar-til-Tyrklands-2024-05-31