154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[17:26]
Horfa

María Rut Kristinsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið og fyrir áhugaverða yfirferð um þessi mál. Ég held að almennt sé ágætt að sleppa tvíverknaði í kerfinu en stundum getur það verið mikilvægt til að tryggja ákveðin öryggissjónarmið, að það séu kannski tveir aðilar sem skoða sama flötinn til að baktryggja einhverja stöðu. Ég þekki ekki mjög vel til þess sem hv. þingmaður reifar hér þannig að ég get kannski ekki beint lagt mat á það, enda er það kannski ekki efnisatriði þess frumvarps sem við ræðum núna. Þar er auðvitað líka undirstrikað mikilvægi þess að hafa gegnsæi, tryggja málsmeðferðina og getu Orkustofnunar til að afgreiða málin vel og vandlega. Rammaáætlun spilar þar inn í. Almennt séð þá hugsa ég að mér finnist tvíverknaður ákveðin sóun á tíma en það getur þó auðvitað komið til þess að nauðsynlegt sé að gaumgæfa málin vel. Það má ekki flýta sér um of þannig að það slái af gæðum ákvarðanatöku eða að hlutirnir verði að geta staðist tímans tönn. Hér er oft um að ræða óafturkræfar ákvarðanir sem varða náttúruna, sem varða landið okkar, auðlindirnar. Ég held að það sé ágætt að vanda sig þegar kemur að þeim þáttum. Að því sögðu þá held ég að málsmeðferðartími, þegar kemur að leyfisveitingum og slíku, sé eitthvað sem megi bæta.