Plútonflutningar
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Örfáar athugasemdir í tilefni af orðum hv. 2. þm. Austurl.
    Í svari mínu var því að sjálfsögðu hvergi haldið fram að ekki hefði verið lýst hugmyndum eða verið uppi áform um þá flutninga sem spurst er fyrir um. Hins vegar kom þar rækilega fram að það hefur þegar verið aflað um það upplýsinga sem telja verður óyggjandi að það eru engar áætlanir til um slíka flutninga eða ákvarðanir um að þær fari fram á næstu árum. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. þm., að sendiherra Íslands í París hafði kynnt sér málið sérstaklega. Þar er staðfest að slík áform voru uppi um flutninga loftleiðina þótt engar ákvarðanir hefðu verið um það teknar, einnig athuganir um flutninga á skipum. Enn fremur lýst hugmyndum um flutninga í tvennu lagi, þ.e. möguleika á að flytja eldsneyti í tvennu lagi, annars vegar úraníum og plútóníumoxíð hvort fyrir sig, sjálft eldsneytið ekki blandað fyrr en á áfangastað í Japan. Loks var þar bent á að við endurvinnslu á notuðu kjarnorkuveraeldsneyti væru agnir af hágeislavirku plútóníum einangraðar og skildar frá og allt hálfgeislavirka efnið væri síðan sett í geymslur í Frakklandi en ekki endursent til Japans með hinu nýja eldsneyti. Þetta eru m.a. þær upplýsingar sem fram hafa komið.
    Íslendingar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég vitnaði sérstaklega til þess að fyrirmæli hafa verið gefin allt frá 23. apríl um bann við lendingu flugvéla á Keflavíkurflugvelli. Málið hefur verið tekið alvarlega, upplýsinga hefur verið aflað, áhyggjum lýst, mótmælum komið á framfæri. Og svarið við spurningum hv. þm. er þetta, að slík áform eru ekki uppi á næstu árum.