Einnota umbúðir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svör hans þó ég verði fyrir miklum vonbrigðum að ekki skuli nú þegar liggja fyrir stjfrv. um þessi mál á þinginu vegna þess að vandamálið hefur ekkert minnkað frá því að þessi till. var lögð fram í fyrra og Alþingi samþykkti hana í vor. Það er öllum ljóst að einnota umbúðir eru einn mest áberandi sóðaskapur á Íslandi og það þýðir ekkert að setja þetta mál í nýjar og nýjar nefndir því að við höfum ekki efni á því að bíða lengur.
    Ég hef undir höndum drög að reglugerð um einnota umbúðir, sem var unnin af Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráði og Landvernd, þar sem þessi mál virtust komin á góðan rekspöl. Ég skil ekki hvers vegna er verið að blanda þessu saman við endurvinnslu. Það er kannski út af fyrir sig ágætt því að mikið af einnota umbúðum eru áldósir og annað sem endurnýtanlegt er, en það er ekki eingöngu það vandamál sem við eigum við að stríða. Mér líst a.m.k. mjög vel á þau drög sem hafa legið fyrir. Mér skildist á ráðherranum í fyrra þegar við vorum að ræða þessi mál að það gilti það sama um hann þannig að ég sé ekki að það sé eftir neinu að bíða að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í fyrra og byggja á þessum drögum og vera ekki að láta nýtt fólk taka þessi mál upp og þá eingöngu með tilliti til endurnýtingar. Við verðum að líta á þetta mál í miklu víðara samhengi en eingöngu á endurnýtingarþáttinn þó ég sé ekki að gera lítið úr honum. Ég skora á ráðherrann að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar og láta þetta ekki eingöngu fara til iðnrn. Þetta er mengunarmál sem verður að taka alvarlega á og taka föstum tökum.