Framleiðsla og sala á búvörum
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Fáein orð um þetta frv. sem hér er endurflutt, mun hafa hlotið þau örlög á síðasta þingi að vera vísað til ríkisstjórnarinnar, en eins og heyra mátti á máli frsm., þá þótti honum sem lítið hefði gerst úr því. Væntanlega er það ástæða endurflutnings hér að hv. flm. vill láta á það reyna betur hvort unnt er að hrinda þessum breytingum á búvörulögunum í framkvæmd.
    Ég ætla ekki að hafa hér uppi stór orð til eða frá um það hversu mikilvægt réttinda- eða sanngirnismál sé hér á ferðinni, en mér finnst sjálfsagt að skoða hvort með breytingum af þessu tagi sé unnt að samræma betur þær reglur sem bændur búa við, annars vegar þeir sem stunda sauðfjárbúskap og leggja inn slíkar vörur og hinir sem stunda mjólkurframleiðslu. Mér er reyndar til efs að breytingin sé svo mikil miðað við það að framkvæmd greiðslna til sauðfjárbænda sé þá að fullu og öllu í samræmi við ákvæði búvörulaganna og þær verklagsreglur sem menn hafa reynt að setja sér í þeim efnum. Því miður hefur ekki alltaf tekist að standa þannig að framkvæmdinni að þetta væri hægt að fullu og öllu miðað við réttar dagsetningar, enda má segja að ákvæði laganna séu fyrst og fremst skuldbindandi hvað það varðar að fullnaðaruppgjör skuli hafa farið fram fyrir tiltekinn tíma í desembermánuði, nánar tiltekið 15. des.
    Það má t.d. velta því fyrir sér hvort þessi breyting, sem yrði samkvæmt frv. þessu, yrði til bóta eða ekki fyrir þá bændur í sauðfjárbúskap sem slátra síðast í sláturtíðinni á hverju hausti. Ég hygg að ef grannt væri skoðað, þá kynni regla af því tagi að miða við 10. dag næsta mánaðar á eftir innlagsmánuði að minnka frekar en auka fyrstu inngreiðslu til þeirra bænda sem slátra seint í sláturtíðinni, en síðan mundi það væntanlega bætast upp aftur síðar á haustinu. Sláturtíð er yfirleitt tæplega hálfnuð um mánaðamót september--október og á sumum stöðum skammt á veg komin. Það gefur því auga leið að talsverður hluti bænda hefur annaðhvort lagt lítið eða jafnvel ekkert inn um þau mánaðamót. Að þessu þyrfti m.a. að huga.
    Ég tel þó að það sem mestu máli skiptir í þessu sambandi sé að eðlileg framkvæmd laganna sé tryggð og þeim aðilum sem hér er ætluð framkvæmdaskylda, þ.e. afurðastöðvunum, séu tryggðar forsendur til þess að uppfylla ákvæði laganna. Þeir aðilar geta ekki frekar en aðrir uppfyllt ákvæði laga nema það sé þeim mögulegt af efnislegum ástæðum. Það er fyrst og fremst tvennt sem að mínu mati þarf að vera fyrir hendi til þess að afurðastöðvarnar geti uppfyllt þær kvaðir sem á þær eru lagðar, annars vegar að þær búi við eðlilega rekstrarafkomu þannig að um tap frá ári til árs sé ekki að ræða, sem auðvitað mundi torvelda þeim með hverju ári sem líður að uppfylla sínar skuldbindingar, og hið síðara er að þær búi við eðlilega fjármögnunar- og afurðalánafyrirgreiðslu. Þetta hvort tveggja hefur verið mikið til umræðu á hverju

hausti og kann mönnum að sýnast nokkuð sitt hvað um það hvernig að þeim hefur verið búið, en ég hygg þó að allir kannist við næsta árvissar umræður um afurðalánafyrirgreiðslu til þessara aðila. Þau mál hafa verið til skoðunar af hálfu landbrn. síðan ég kom þar inn fyrir dyr. Við höfum rætt við viðskiptabankana á þessu hausti um að þeir taki þátt í því með sambærilegum hætti og verið hefur að veita afurðalán til landbúnaðarins og ég geri ráð fyrir því að endanleg ákvörðun þeirra liggi fyrir á næstu dögum þegar birgðastaða um síðustu mánaðamót verður orðin ljós.
    Síðan er rétt að hafa í huga og minna á það ákvæði stjórnarsáttmálans að taka öll afurðalánaviðskipti til endurskoðunar. Ég hygg að m.a. breytingar af því tagi sem hér um ræðir ættu að skoðast í því ljósi hver verður þar niðurstaðan. Verði um að ræða umtalsverðar breytingar á fyrirkomulagi afurðalána, þá sé eðlilegt að skoða uppgjörsákvæði annarra laga eins og hér um ræðir í samhengi við það. En ég endurtek að fyrst og fremst skiptir hér máli að eðlileg framkvæmd sé af hálfu stjórnvalda tryggð og lagabókstafurinn einn og sér, ef ekki eru forsendur til þess að framkvæma hann, mun skila mönnum mjög litlu í þessu efni eins og oft endranær.
    Ég hef ekki fleiru við þetta að bæta, hæstv. forseti. Hv. landbn. deildarinnar, sem væntanlega fær þetta mál til skoðunar, mun undir sinni traustu forustu, eins og hér kom fram í ræðu flm., skoða þetta mál. Ég treysti því að þar komist menn að gáfulegri niðurstöðu, hvort sem hún verður sú hin sama og á síðasta ári, að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar til frekari fyrirgreiðslu og framkvæmda --- það mætti hugsa sér það að menn vildu leyfa nýrri ríkisstjórn að spreyta sig við það efni --- eða hvort menn komast að einhverri annarri niðurstöðu. Það kemur þá í ljós þegar nefndin hefur lokið sínum störfum.