Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Friðrik Sophusson vék að því í upphafi síns máls að mörg brýn verkefni blöstu nú við í okkar þjóðfélagi og ærin ástæða væri að ræða afkomu útflutningsatvinnuveganna, stöðu þeirra, stöðu gjaldmiðilsins og fjölmargt annað sem allt eru höfuðþættir í okkar efnahagsstjórn. Engu að síður tók hann þá ákvörðun að nota ekki rétt sinn hér á Alþingi til þess að krefjast umræðna um þessi brýnu mál heldur taldi brýnna en allt annað að hefja hér á Alþingi umræður um athugun á nýju álveri. Þessi ákvörðun hv. þm. Friðriks Sophussonar endurspeglar mjög vel þá afstöðu hans og kannski fleiri fulltrúa Sjálfstfl. að nýtt álver sé í sjálfu sér miklu merkilegra fyrirbæri en staða útflutningsatvinnuvega Íslands og afkoma atvinnuveganna í heild og þær yfirlýsingar sem komið hafa fram um þau efni bæði frá fulltrúum atvinnuveganna og öðrum á undanförnum dögum. Það er út af fyrir sig ekki nýtt að sú afstaða komi fram, en það er fróðleg staðfesting enn á ný á afstöðu Sjálfstfl. til atvinnuuppbyggingar á Íslandi og rétt að hafa hana í huga fyrir þá fulltrúa Sjálfstfl. hér í salnum sem hafa á sínu æviskeiði og í sinni stjórnmálabaráttu talið sjávarútveginn og þróun hans vera það mikilvægasta fyrir þróun íslensks þjóðfélags.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson var iðnrh. nokkurn tíma og fer nú heldur lítið fyrir afreksverkum hans á því sviði. Hlutdeild íslensks iðnaðar í markaðnum í landinu fór hnignandi og erfiðleikar hins íslenska iðnaðar voru meiri þegar hv. þm. Friðrik Sophusson lauk iðnaðarráðherraferli sínum en þegar hann tók við. En það var hins vegar eitt mál sem hv. þm. hafði greinilega mikinn áhuga á og það var að gera samning um nýtt álver við fjögur erlend stórfyrirtæki. Það er greinilega enn svo brýnt áhugamál hans að hann telur nauðsyn á því að hefja upp umræðu utan dagskrár um það mál þótt honum hafi átt að vera ljóst, eins og nú þegar hefur komið fram í svörum hæstv. núv. iðnrh. og hæstv. forsrh., að það er ærið langt í það að þetta mál komi til einhverrar alvarlegrar umræðu eða ákvörðunartöku þannig að efnislega var engin ástæða til þess að fara hér upp utan dagskrár í dag til að knýja á um svör í þessum efnum.
    Þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn var mynduð urðu eðlilega miklar umræður um þessa áætlun hæstv. iðnrh. Friðriks Sophussonar. Ég vil í því sambandi rifja upp að hæstv. núv. sjútvrh., sem einnig var sjútvrh. í þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. Friðrik Sophusson sat í, lýsti því yfir á sínum tíma að hann hefði mjög alvarlega fyrirvara um þessi áform um nýtt álver í Straumsvík, enda hefði málið ekki verið rætt í fyrrverandi ríkisstjórn áður en þáv. iðnrh. Friðrik Sophusson gerði þennan samning um hagkvæmnisathugunina. Og hæstv. núv. forsrh. og formaður Framsfl. lýsti því einnig yfir að hann hefði alvarlega fyrirvara um þau þjóðhagslegu áhrif sem staðsetning þessa álvers í Straumsvík fæli í sér. Það var því alveg ljóst að innan fyrrv. ríkisstjórnar var á engan hátt eining um þetta mál. En hv. þm. Friðrik Sophusson, þáv. iðnrh., hélt engu að síður áfram og

gerði þennan samning við fyrirtækin fjögur án þess að fyrir lægi samkvæmt blaðafregnum á þeim tíma formlegt samþykki þingflokka þáverandi ríkisstjórnar fyrir þeirri athugun, hvað þá heldur samþykkt Alþingis. Það er eitt út af fyrir sig ámælisvert að hæstv. ráðherra skuli á þeim tíma hafa stigið skref af þessu tagi án þess að taka það upp á Alþingi eða kynna það fyrir Alþingi sérstaklega þegar á þeim tíma voru fluttar hér á Alþingi tillögur um að af hálfu þingflokkanna allra yrðu fulltrúar sem gætu fylgst með og tekið rækilega þátt í víðtækri þjóðhagslegri athugun á slíkum atvinnukosti. Það er þess vegna kannski skiljanlegt að hv. þm. Friðrik Sophusson kjósi að reyna að breiða yfir þennan aðdraganda málsins með málflutningi sínum hér í dag, en það verður ekki til þess að upphaf málsins og málsmeðferð hans sem iðnrh. verði ekki dregin einnig inn í umræðurnar.
    Þegar núv. ríkisstjórn var mynduð lá það hins vegar fyrir að samningur hafði verið gerður um þessa tilteknu hagkvæmnisathugun. Ég ítreka í því sambandi að sú hagkvæmnisathugun er ekki samningsgerð um nýtt álver. Hún er eingöngu hagkvæmnisathugun fjögurra tiltekinna fyrirtækja sem sín á milli hafa gert samning um þessa hagkvæmnisathugun. Í henni felst ekki neinn samningagerningur af hálfu Íslendinga. Þvert á móti er það verk algerlega eftir ef og þegar forráðamenn Íslendinga telja að sá hagkvæmnigrundvöllur sem þessi fyrirtæki kunna að komast að niðurstöðu um samrýmist hagsmunum Íslendinga, en það liggur ekkert fyrir um það á þessu stigi máls.
    Ég nefni í þessu sambandi eitt atriði sem athyglisvert var að hv. þm. Friðrik Sophusson vék mjög lítið að í sínu máli, nánast ekki neitt, en er þó lykilatriði út frá efnahagslegum hagsmunum Íslendinga í málinu. Það er orkuverðið. Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur vikið að því nokkrum sinnum hér á Alþingi að ég eigi sæti í stjórn Landsvirkjunar. Ég hef að vísu vikið úr þeirri stjórn meðan ég gegni mínu núverandi embætti. En það er hins vegar svo skammt um liðið síðan ég sat í þeirri stjórn að það vill svo til að ég þekki mjög vel þær athuganir sem gerðar hafa verið á orkuverði í því fyrirtæki. Að mínum dómi er alveg ljóst að eigi að vera einhver raunhæfur efnahagslegur grundvöllur með tilliti til nýrra virkjana og kostnaðarverðs orku frá þeim er
lágmark að orkuverðið sé á bilinu 18--22 mill. Hvort þessi fjögur tilteknu fyrirtæki telja hagkvæmt fyrir sig að reisa orkuver á grundvelli verðs af því tagi liggur ekkert fyrir um í dag með neinum hætti. Það mál er algerlega eftir og þess vegna fullkomlega ótímabært að fjalla um það hér.
    Þetta eitt ætti að sýna að það er á engan hátt brýn nauðsyn fyrir hv. þm. Friðrik Sophusson að krefjast þess að þetta mál sé tekið fyrir hér og nú. Hins vegar gagnrýni ég það ekkert sérstaklega né heldur ákvörðun forseta í þeim efnum. Það er sjálfsagt að fulltrúar stjórnarandstöðuflokks Sjálfstfl. geti valið þau málefni sem þeir telja brýnast að fjalla um. Hins vegar skal ég svara þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín,

bæði sem fjmrh. en þó skildist mér nú einna helst sem formanns Alþb., og skal ekki með neinum hætti skjóta mér undan því.
    Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð var um það rætt milli fulltrúa stjórnarflokkanna að sú samninganefnd sem hv. þm. Friðrik Sophusson hafði skipað mundi ekki starfa lengur, í öðru lagi að starfsemi þeirrar markaðsskrifstofu sem hv. þm. Friðrik Sophusson kappkostaði mjög að koma á og mótmælt var í stjórn Landsvirkjunar af bæði mér og öðrum stjórnarmönnum Landsvirkjunar yrði tekin til rækilegrar endurskoðunar þegar eins árs samningstímanum yrði lokið. Ég vil vekja athygli á því hér að stjórn þessarar markaðsskrifstofu er t.d. þannig skipuð, ef ég man rétt, að stjórnarformaður hennar er hv. þm. Geir H. Haarde, fulltrúi Sjálfstfl., og ýmsir aðrir fulltrúar Sjálfstfl. eru þar nánast í meiri hluta. Það eitt út af fyrir sig er með ýmsum hætti mjög óeðlilegt út frá þeim nýja meiri hluta sem myndast hefur á Alþingi. ( FrS: Vill ekki hæstv. ráðherra nefna mér meiri hlutann?) Það getur vel verið að það sé nýtt fyrir hv. þm. Friðrik Sophusson, að hann þekki svo illa sinn flokk og fylgjendur hans. Ég er alveg reiðubúinn að gera það fyrir hann hér sérstaklega utan fundar.
    En síðan var það einnig samþykkt milli stjórnarflokkanna, eins og hæstv. forsrh. hefur hér greint frá, að stjfrv. um nýtt álver yrði ekki flutt nema með samþykkt allra stjórnarflokkanna. Yrðu hins vegar einhverjir aðrir til þess að flytja frv. um það efni og það yrði samþykkt á Alþingi yrði litið á það sem nýjan þingmeirihluta á Alþingi. Sú afstaða, eins og hæstv. forsrh. hefur lýst hér, liggur hins vegar alveg ljós fyrir.
    Það var hins vegar einnig samþykkt að þeirri hagkvæmniathugun, sem gerður hafði verið samningur um og fjármunir lagðir í, yrði lokið, eins og hér hefur verið greint frá, en þó eingöngu þannig að hún er á vegum þeirra fjögurra fyrirtækja sem samning hafa gert um hana og afskipti fulltrúa íslensks ráðherra í þeim efnum eru á engan hátt samningar að einu eða neinu leyti um verkefnið sjálft. Þess vegna tel ég að það endurspeglist í þeim orðum sem hæstv. iðnrh. flutti hér að í stað þeirrar nefndar sem hv. þm. Friðrik Sophusson setti upp hefur núna verið sett ráðgjafarnefnd iðnrh. í tengslum við þessa hagkvæmniathugun sérstaklega.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson spurði einnig um afstöðu Alþb. til þeirrar eignaraðildarforsendu sem hann gaf sér í þeim samningum sem hann gerði eða fyrirtækin gerðu sín á milli meðan hann var iðnrh. Afstaða Alþb. er auðvitað á þann veg að við erum með allan fyrirvara og andstöðu við þau grundvallaratriði sem hv. þm. Friðrik Sophusson mótaði í þessum málum meðan hann var iðnrh.
    Að lokum spurði hv. þm. hvort mér hefði verið kunnugt um að iðnrh. ætlaði að óska eftir því við Baldur Óskarsson og Guðna Jóhannsson að þeir tækju sæti í þessum nefndum. Svarið við því var einfalt. Mér var kunnugt um að iðnrh. ætlaði að leita til

þessara einstaklinga um að þeir tækju sæti í þessum nefndum, en ég tek jafnframt skýrt fram að þeir eru ekki flokkslegir fulltrúar Alþb. vegna þess að sú ráðgjafarnefnd sem iðnrh. hefur skipað er ekki skipuð flokkslegum fulltrúum. Ég lít t.d. ekki á Ólaf Davíðsson, þó að hann sé flokksbundinn í Sjálfstfl., sem fulltrúa Sjálfstfl. í þessari nefnd. ( FrS: Er hæstv. menntmrh. sammála því?) Ja, því skaltu nú spyrja hann að. Ég vænti þess að hann sé sammála því, enda hlýtur hv. þm. Friðrik Sophusson að sjá það í hendi sér að hvorki hæstv. iðnrh. né ríkisstjórnin mundu sýna öðrum flokkum stjórnarandstöðunnar þá ókurteisi eða vanvirðu að gefa þeim ekki kost á því að eiga einnig flokkslegan fulltrúa í þessari nefnd ef um flokkslega fulltrúa væri að ræða --- eða hvers vegna ætti Sjálfstfl. að sitja á einhverjum sérstökum forgangsbekk í þessu máli fram yfir Borgfl. eða Kvennalistann? Alls ekki.
    Þess vegna er alveg ljóst að flokkarnir sem slíkir hafa ekki komið að þessu máli, hvorki fulltrúar flokka ríkisstjórnarinnar né flokkar stjórnarandstöðunnar. Það gildir um báðar þær nefndir sem þarna voru skipaðar, enda vænti ég þess að hæstv. iðnrh. hafi frekar litið á það starf sem Ólafur Davíðsson gegnir sem framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda en flokksskírteini hans í flokki hv. þm. Friðriks Sophussonar.
    Hefði verið um að ræða flokkslega fulltrúa í þessari nefnd hefði málið verið meðhöndlað með allt öðrum hætti, bæði innan ríkisstjórnarinnar og af hálfu flokkanna og einnig hvað snertir samskipti við stjórnarandstöðuna, vegna
þess að þá hefði legið alveg ljóst fyrir að allir flokkar á Alþingi ættu að eiga fulltrúa í þessari nefnd. Nefndin er hins vegar bara ráðgjafarnefnd iðnrh. sérstaklega vegna þessarar hagkvæmniathugunar eingöngu.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi þar með svarað þeim spurningum sem hv. þm. Friðrik Sophusson beindi til mín og vona að virðulegur forseti misvirði það ekki þó ég hafi notað þetta tækifæri einnig til að koma að ýmsum öðrum sjónarmiðum og upplýsingum varðandi þetta mál.