Nýting innlendra orkugjafa
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það eru nokkrir mánuðir síðan þetta mál var síðast á dagskrá, en málið er flutt af hv. varamanni 4. þm. Vesturl. Í tillgr. segir að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta kanna orkunotkun fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga þar sem fram komi hlutfall notkunar á a. olíu, b. raforku, c. jarðvarma. Að niðurstöðum loknum verði síðan gerð áætlun um notkun innlendrar orku til upphitunar í byggingum á vegum ríkis og sveitarfélaga og jafnframt verði leitað leiða til að samræma verðlagningu innlendra orkugjafa.
    Ég hef, virðulegur forseti, ekkert við það að athuga að þetta mál fari til nefndar og verði kannað betur þar, en vildi nefna örfá atriði sem koma umræðuefninu við.
    Í fyrsta lagi held ég að það sé mjög mikilvægt að fram komi að það er gerður munur á annars vegar kostnaði við upphitun atvinnuhúsnæðis og íbúðarhúsnæðis hins vegar þegar um rafhitun er að ræða. Þessi munur kemur fram bæði í verði frá fyrirtækjunum sem framleiða og dreifa orkunni en eins vegna skattlagningar, en skattlagning er á orku til þess húsnæðis sem atvinnufyrirtæki og fyrirtæki sem eru í eigu ríkis og sveitarfélaga þurfa að nota. Það sem kannski er þó alvarlegast er að erlendi orkugjafinn, olían, er hvergi skattlögð á sama tíma og innlendi orkugjafinn er í mörgum tilvikum skattlagður, þ.e. raforkan. Þetta er gert ráð fyrir að breytist þegar virðisaukaskattur verður tekinn upp, en því hefur verið frestað til næstu áramóta. Þá hljóta að verða verðbreytingar eða verðhlutfallsbreytingar á milli orkugjafanna og skiptir þá ekki lengur máli hvort um innlenda orkugjafa er að ræða eða erlenda, skattlagningin ætti að vera með sama hætti.
    Ég tek dæmi sem skýrir þetta kannski betur en ella. Dísilrafstöðvar framleiða orku. Ef hún er notuð til húshitunar er hvergi borgaður söluskattur af dísilorkunni og eins ef hún er notuð í t.d. atvinnu, en orka sem er framleidd úr okkar eigin orkuverum er aftur á móti skattlögð í yfirgnæfandi fjölda tilvika. Þetta er munur sem framkallast og sést kannski einna best á einu litlu dæmi, en það er þegar skip leggst að bryggju. Annars vegar er hægt að fá rafmagn úr landi. Það rafmagn er söluskattlagt. Framleiði hins vegar skipið t.d. með ljósavél sitt eigið rafmagn er það rafmagn skattlaust. Það framkallar auk lágs verðs á olíu mun á því hvort um er að ræða innlenda eða erlenda orkugjafa.
    Varðandi búsetu skal það tekið fram að aldrei fyrr hefur verið minni munur á húshitunarkostnaði eftir búsetu en einmitt á síðasta hálfa árinu. Þar kemur auðvitað margt til, en þó fyrst og fremst aðgerðir ríkisvaldsins, þar á meðal Landsvirkjunar sem hefur greitt til orkudreifingarfyrirtækjanna í hlutfalli við notkun á rafmagninu til húshitunar íbúðarhúsnæðis.
    Ég vil enn fremur að það komi fram að það hefur aldrei verið minni munur, aldrei verið greitt lægra verð miðað við laun en einmitt til rafhitunarkostnaðar um þessar mundir og breytir engu þótt laun hafi ekki

hækkað neitt frá því í maí sl. því á sama tíma hefur raforkuverðið í langflestum tilvikum ef ekki öllum ekki hækkað þannig. Það er því ljóst að hlutfallið hefur aldrei verið hagstæðara fyrir þá sem greiða þurfa rafhitun en einmitt nú.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi fram í þessari umræðu því það er ekki víst að allir geri sér ljóst að ríkisvaldið getur haft veruleg áhrif í gegnum skattlagningu til að jafna orkuverð eftir því hvort hún er erlend eða innlend.
    Þá vil ég gera athugasemd við það sem kemur fram í næstsíðustu málsgr. í grg. með þessari ályktunartill. þótt það skipti ekki meginmáli, en þar segir að íslensk stjórnvöld hafi til þessa talið sér fært að skipa auðlindum landsins niður á þegna þjóðfélagsins og eru þar fiskistofnarnir nefndir til. Hins vegar segir: ,,Vekur það furðu að stór hluti orkuöflunar er afhentur einstaka sveitarfélögum og stofnunum án tillits til afkomumöguleika`` o.s.frv.
    Hér er gefið í skyn að auðæfum eins og þeim sem búa í hafinu sé dreift á þegna landsins. Það vita allir hvernig það er gert. Það er gert með ákveðinni aðferð. Þeir sem áttu skip og fiskuðu ákveðið magn á tilteknum árafjölda fá þessa auðlind, skipt með ákveðnum hætti eins og Alþingi hefur ákveðið. Þetta var hægt vegna þess að ríkið taldi sig eiga, sjálfsagt með réttu, auðlindirnar í hafinu umhverfis landið. Þetta er að sjálfsögðu umdeilanlegt og um þetta hafa stjórnmálamenn og aðrir deilt og halda áfram að deila og ugglaust þurfa menn að finna aðra leið út úr þeim vanda sem þar er uppi og veit ég að margir þingmenn eru mér sammála um það. Hitt er svo annað mál að ríkið hefur ekki afhent sveitarfélögum eða einstaklingum eignarrétt á orkuöflun, það er mjög alvarlegur misskilningur, því að sem betur fer hefur séreignarréttur verið við lýði hér á landi í gegnum aldirnar.
    Þetta segi ég vegna þess að það má skilja á grg. að ríkið hafi afhent til að mynda Reykjavíkurborg þær auðlindir sem Reykjavíkurborg á og nýtir til að hita upp íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Það má skilja grg. með þeim hætti að ríkisvaldið hafi afhent Reykjavík þessi auðæfi, en það er auðvitað
misskilningur því að Reykjavíkurborg hefur keypt þessar auðlindir með sama hætti og öllum öðrum er heimilt að kaupa það sem er í séreign hér á landi og má nefna mýmörg dæmi þar um því að sem betur fer er ekki öll eign í upphafi frá ríkinu komin. Það er það sem kannski hélt lífinu í okkur og kom í veg fyrir í gegnum aldirnar að erlendir aðilar gætu eignast allt hér á landi að séreignarrétturinn og almenningur í eigu Íslendinga var virtur hér á landi. Þetta vildi ég að kæmi fram því mér sýnist vera misskilningur á ferðinni í grg., en tek það fram að það hefur enga meginþýðingu fyrir efni sjálfrar þáltill. því að hún er skýr og kemur fram í tillöguformi.
    Með þessum athugasemdum, virðulegur forseti, sé ég enga ástæðu til annars en að nefndin skoði þetta mál, en þá þarf að skoða allar hliðar málsins en ekki einungis þær sem nefndar eru í sjálfri tillgr.