Efnahagsaðgerðir
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Það er ekki rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., að stjórnarandstaðan eða a.m.k. ég sitji hjá vegna þess að við séum að hálfu með og að hálfu móti þessu frv. heldur geri ég grein fyrir minni hjásetu við þetta frv. með því að segja það, sem ég hef þegar sagt í þessari umræðu um frv., að hér er um slíka blekkingastarfsemi að ræða, það er verið að selja hlutdeild í engu, mynda sjóð til að kaupa hlutafé, sjóð sem ekki á að borga vexti heldur að kaupa hlutafé af fyrirtækjum sem aldrei hafa gefið arð og borgar ekki vexti af þessu fé, þannig að það er ekki hægt að greiða atkvæði um neitt. Hér er um blekkingartillögu að ræða og þess vegna sit ég hjá og ég held áfram að taka ekki þátt í afgreiðslu á þessum málum.