Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vona satt að segja að hv. 14. þm. Reykv. hafi ekki verið að biðja alla ráðherrana að halda sömu ræðuna, það yrði nú heldur leiðinlegt þinghald. Auðvitað héldum við þrjár mismunandi ræður. Þetta er sama fjallið séð úr þremur áttum, sama fjallið. ( GHG: Þið hafið aldrei sömu skoðanir.) Það hlýtur hv. þm. að kannast við að geti komið fyrir í lífinu.
    En svo ég snúi mér að hinni beinu spurningu þm. þá er svarið einfalt. Samkvæmt landslögum er heimild fyrir því að allt að fjórðungi hlutafjár í Útvegsbanka Íslands hf. sé í eigu erlendra banka eða fjármálastofnana. Þetta eru landslögin, þetta gildir í dag, þetta gildir líka á morgun og á þeim grundvelli er sjálfsagt að starfa í landinu.